131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:38]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Eins og fyrirspyrjandi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, vísar til hefur forsætisráðherra Danmerkur gefið út sérstök fyrirmæli til ráðherra í ríkisstjórn sinni um að birta opinberlega upplýsingar um fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl sín og maka sinna við fyrirtæki. Þetta var gert í kjölfar tveggja hneykslismála sem tengdust mökum ráðherra eða væntanlegs ráðherra. Allir ráðherrar urðu við þessu, nema hvað maki eins ráðherrans neitaði því af prinsippástæðum um friðhelgi einkalífs.

Hér á landi hefur það verið venja að ráðherrar sitji ekki í stjórnum fyrirtækja. Eins á það auðvitað við samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, að ráðherra ber að víkja sæti ef til úrlausnar koma mál sem varða fyrirtæki þar sem ráðherra eða venslamenn hans eiga sérstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta. Veit ég ekki til þess að nokkur mál hafi komið upp hér á landi, a.m.k. ekki í seinni tíð, sem sýni að fyrrnefndar reglur og venjur dugi ekki til að því er ráðherra snertir. Eru ráðherrar þó og verk þeirra stöðugt undir smásjánni af hálfu alþingismanna, dómstóla, umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar, fjölmiðla og almennings. Ef leita á samanburðar hjá öðrum starfsstéttum má geta þess að samkvæmt dómstólalögum, nr. 15/1998, ber dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um hlut sem hann eignast í félagi eða fyrirtæki. Þessar upplýsingar eru ekki birtar opinberlega eftir því sem ég best veit, heldur er viðkomandi nefnd falið að hafa eftirlit með því að aukastörf dómara og eignarhlutur í fyrirtækjum hafi ekki áhrif á sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni.

Það má því spyrja hvort ganga þurfi enn lengra varðandi ráðherra en gert er þegar dómarar eiga í hlut. Mjög ríkar kröfur eru gerðar um sjálfstæði dómara en samt er ekki ætlast til að þeir birti opinberlega upplýsingar af því tagi sem hv. fyrirspyrjandi vísar til. Hlýtur það að helgast m.a. af sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Það þarf að íhuga í þessu sambandi að það þyrfti líkast til að ganga nokkuð langt varðandi friðhelgi einkalífs ráðherra og venslafólks hans ef reglur af þessu tagi ættu að hafa eitthvað að segja. Hvað sem öðru líður ættu að mínu mati að gilda sömu reglur um alþingismenn og ráðherra að þessu leyti. Má reyndar segja að ríkari ástæða sé til að skoðuð sé staðan varðandi alþingismenn því að um þá gilda ekki hæfisreglur stjórnsýslulaga. Ég tel eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis taki málið til umfjöllunar og móti tillögur um hvaða reglur skuli gilda í þessum efnum um alþingismenn sem væru þá jafnhliða um ráðherra.

Eins og fram kemur í skýrslu minni til Alþingis sem dreift hefur verið í dag um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi hef ég ákveðið að skipa nefnd allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi er fjalla mun um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi og einkum og sér í lagi fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka. Hef ég sent bréf til formanna allra flokka þar sem þeir eru beðnir um að tilnefna fulltrúa í nefndina. Ég tel að þessi nefnd geti jafnframt verið góður vettvangur stjórnmálaflokkanna til að fjalla um upplýsingaskyldu stjórnmálamanna um fjárhagsleg eða stjórnunarleg tengsl sín við fyrirtæki og samtök.