131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:46]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Lykilatriðið um traust og virðingu á löggjafarsamkomunni og um trúverðugleika þingmanna liggur í orðinu gagnsæi, gagnsæi um hugsanleg eigna- og hagsmunatengsl þingmanna. Við teljum að það auki trúverðugleika þingsins og þingmanna að slíkar reglur séu fyrir hendi. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur þegar sent forseta þingsins bréf um og óskað eftir því að forsætisnefnd setji slíkar reglur, auk þess sem þingflokkurinn hefur ákveðið að eiga frumkvæðið að því að setja sér slíkar reglur og ráðast í það að birta opinberlega upplýsingar um fjárhag og eignir og eftir atvikum eignarhlut þingmannanna í atvinnurekstri, þóknun fyrir önnur launuð störf, aðild að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir, hlunnindi og boðsferðir.

Lykilatriðið er gagnsæi og við höfum ákveðið í þingflokki Framsóknarflokksins að ríða á vaðið, en aðlaga síðan þær upplýsingar að þeim reglum sem forsætisnefnd setur ef og þá þegar af því verður.