131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:47]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Þau lofa góðu. Ég er almennt séð hlynntur því að hafa sem mestar upplýsingar og mest gagnsæi. Það slær á sögusagnir og kjaftasögur og gróusögur sem oft fara út um víðan völl og gera miklu meira úr hlutunum en tilefni eru til.

Þingmenn eru kosnir á Alþingi til að gæta hagsmuna. Sumir eru hér fyrir verkalýðsfélög, aðrir fyrir sveitarfélög o.s.frv. en þeir hagsmunir liggja fyrir og þurfa að vera gagnsæir þannig að menn viti hvar þingmaðurinn stendur.

Í sambandi við eignatengsl sem menn horfa mikið á vil ég benda á skuldatengsl sem eru miklu alvarlegri. Ef menn eiga að gefa upp eignir sínar ættu þeir ekki síður að gefa upp skuldastöðu sína þannig að menn viti hverjum þeir eru virkilega háðir.