131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:53]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að heyra hve sammála allir virðast um að opna eigi allt upp á gátt. Það er svolítið skrýtið að það skuli þá ekki hafa gerst fyrr. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Staðreyndin er sú að Ísland er í sérflokki fyrir það við hve lokað kerfi við búum. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi, svo að dæmi séu tekin, þykir sjálfsagt mál að upplýsingar um hagsmunatengsl ráðherra í ríkisstjórnum séu öllum aðgengilegar.

Tilefnið í Danmörku, segir hæstv. forsætisráðherra, fyrir því að reglur voru settar voru hneykslismál. Ef við þurfum hneykslismál til að fá tilefni til að setja reglur eru þau ærin til, og vék ég að nokkrum í inngangi mínum áðan.

Ég er sammála því að svipaðar reglur eigi að gilda um þingmenn, og að sjálfsögðu þarf að opna reikninga stjórnmálaflokkanna svo að ganga megi úr skugga um hvort einkavinir launi velgerðarmönnum sínum veitta pólitíska greiða.

Þetta er brýnt hagsmunamál. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum fyrir löngu opnað alla okkar reikninga þannig að þeir eru öllum aðgengilegir og ljósir. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin setji þegar í stað sambærilegar reglur og Danir hafa sett, aðgengilegar á heimasíðu danska forsætisráðuneytisins, um hagsmunatengsl ráðherra í ríkisstjórninni. Það eina sem skortir á að það verði gert hér er viljinn til þess.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsir yfir vilja til að stíga skref í þá átt og læt ég það vera lokaorð mín að fagna því skrefi.