131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:55]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er eðlilegt og nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir ræði þessi mál saman. Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa til þess vettvang í forsætisnefnd þingsins. Ég er á margan hátt undrandi á því hve lítil umræða virðist hafa farið fram þar um þessi mál. Auðvitað hefði forsætisnefnd fyrir löngu getað sett reglur um þessi mál. Ég vek líka athygli á því að einstakir þingflokkar geta sett sjálfum sér slíkar reglur. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Það hefur þingflokkur Framsóknarflokksins ákveðið að gera, og það er verið að vinna í því. Ég mun að sjálfsögðu undirgangast það eins og aðrir þingmenn. Þetta er kannski ekki svo óskaplega erfitt eins og mér heyrist vera hjá mörgum þingmönnum hér.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að þarna séu samræmdar reglur og ég vænti þess að forsætisnefnd fjalli ítarlega um þessi mál og nái vonandi niðurstöðu um reglur sem eru í samræmi við það sem gengur og gerist í kringum okkur. Ég tel líka eðlilegt að sú nefnd sem fjallar um hugsanleg fjárhagsleg tengsl stjórnmálaflokkanna fjalli um þessi mál. Þetta verða hins vegar að vera reglur sem byggja á því að hér er um að ræða lýðræðisleg samtök sem eru undirstaða lýðræðisins í landinu og taki tillit til þess að það er nauðsynlegt að þessi starfsemi eigi sér stað. Það er það sem mér finnst skorta á í þjóðfélaginu. (Forseti hringir.) Það er eins og mönnum finnist þetta nánast óþörf starfsemi (Forseti hringir.) sem þurfi ekkert fjármagn að fá.