131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[14:00]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Nefnd sú sem hv. fyrirspyrjandi Guðmundur Hallvarðsson vísar til lagði fram þrjár megintillögur varðandi sveigjanleg starfslok launþega.

Í fyrsta lagi lagði nefndin til að starfsmenn geti frestað starfslokum allt til 72 ára aldurs sem eftir atvikum mætti binda sérstökum skilyrðum um starfsþrek viðkomandi starfsmanns og getu hans til að valda starfinu. Nefndin lagði jafnframt til að hægt væri að fresta töku lífeyris til allt að 72 ára aldurs án þess að ávinningur réttinda skerðist.

Í annan stað taldi nefndin koma til álita að skylda lífeyrissjóði á almennum markaði til að heimila töku lífeyris frá 60 ára aldri hafi starfsmaður unnið sér meginhluta fullra lífeyrisréttinda. Ávallt skal þó refsa tryggingafræðilega fyrir skammtöku lífeyris.

Í þriðja lagi mælti nefndin með að starfsmenn geti minnkað við sig vinnu og hafið hlutatöku lífeyris eftir að tilteknum aldri er náð. Þó skal sett gólf á hvað skerða má hefðbundin eftirlaun sem óhjákvæmilega leiðir af hlutatöku lífeyris til að útiloka fátækt á efri árum sem rekja mætti til hlutatökunnar.

Ofangreindar hugmyndir miða allar að því að auka valfrelsi starfsmanna á vinnumarkaði sem mest. Nefndin hafði það að leiðarljósi að ekki myndist óæskilegir hvatar til snemmtöku eða seinkunar lífeyris á íslenskum vinnumarkaði og áfram verði miðað við að þorri landsmanna ljúki störfum við 67 ára aldur.

Þá lagði nefndin áherslu á að enginn beri kostnaðinn af snemm- eða hlutatöku lífeyris nema starfsmaðurinn sjálfur og að hann geri sér fullkomlega ljóst hver áhrifin verði á eftirlaun hans í framtíðinni. Lög og reglur hér á landi um starfslok og réttindi launþega við starfslok eru tiltölulega einföld og skýr og ekki hefur verið sérstakur ágreiningur um túlkun þeirra eða framkvæmd.

Vissulega hafa heyrst þær raddir að ekki sé rétt að knýja fólk til að láta af störfum meðan það hefur enn gott starfsþrek og vilja til að halda áfram atvinnuþátttöku. Í hina áttina lýtur gagnrýnin að því að fólk eigi þess ekki kost að hætta atvinnuþátttöku fyrr en nú er. Á það ber hins vegar að líta að lífeyriskerfið hefur eflst á undanförnum árum. Almennur sparnaður og eignamyndun hefur aukist. Af þessum sökum hafa skapast betri forsendur fyrir því að einstaklingar búi við aukinn sveigjanleika og frelsi varðandi ákvarðanir um hvernig þeir hátta töku lífeyris. Möguleikar og hvati til viðbótarlífeyrissparnaðar hefur verið aukinn verulega á undanförnum árum og munar þar mestu um framlag atvinnurekandans. Líklegt er að starfsmenn muni nota þennan möguleika í framtíðinni til að draga úr vinnu. Áhrifa viðbótarlífeyrissparnaðar á starfslokaákvarðanir mun gæta í auknum mæli með tímanum og þungi þeirra verður orðinn verulegur eftir 10–20 ár.

Frá því að skýrsla fyrrgreindrar nefndar var lögð fram í október 2002 hefur þrýstingur frá hagsmunaaðilum á stjórnvöld verið takmarkaður við að breyta lögum um fyrirkomulag töku lífeyris. Breyting á lögum í þá átt að fresta starfslokum til 72 ára aldurs er vandasöm og erfitt að finna meðalhóf og viðmiðunarmörk.

Ég sé því ekki ástæðu á þessu stigi til að breyta gildandi lögum í þá átt sem nefndin lagði til heldur vil ég bíða og sjá hvort styrking lífeyrissjóða og áhrif viðbótarlífeyrissparnaðar muni ekki á næstu árum mæta þeirri gagnrýni sem fyrr var nefnd. En að sjálfsögðu munum við taka það til athugunar ef lífeyrissjóðirnir almennt vilja ekki bíða eftir því og fara út í einhverjar slíkar breytingar.