131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[14:05]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Það er mikil ástæða til þess að halda þessu á lofti og því meiri ástæða sem tímar líða. Þátttaka í atvinnulífi er stærri hluti af sjálfsmynd Íslendinga en hjá flestum öðrum þjóðum og hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka hjá fólki á sjötugs- og áttræðisaldri jafnmikil og á Íslandi. Eldri borgarar búa almennt við betri heilsu og geta vænst þess að ná hærri aldri en foreldrar þeirra, kynslóðin á undan þeim, og þeir sem nú eru komnir á hefðbundinn eftirlaunaaldur eða eru að færast yfir á þetta æviskeið gera meiri kröfur til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu en þeir sem á undan þeim fóru.

Öldruðum fer hratt fjölgandi. Þeir sem eru 65 ára og eldri eru um 12% þjóðarinnar í dag og verða tæplega 20% eftir 30 ár. Það er því augljóslega þjóðfélagslegt hagræði af því að verða við óskum og kröfum fjölmennra hópa eldri borgara um að gefa kost á sveigjanlegri starfslokum en þeim er gefinn kostur á nú. Þess vegna eru svör hæstv. forsætisráðherra ákveðin vonbrigði. Ég hvet hann til þess að skoða málið nánar.