131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:22]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þjóðin á meginhluta Símans. (Gripið fram í.) Sala Símans er keyrð fram gegn vilja þjóðarinnar. Skoðanakannanir síðustu ára hafa sýnt að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur sölu Símans, nú síðast 76%. Tveir af hverjum þremur og líklega nærri því þrír af hverjum þremur framsóknarmönnum eru andvígir sölu Símans. Það eru aðeins forsætisráðherra og örlítill hópur í kringum hann sem er fylgjandi sölunni.

Almenningur gat stoppað sölu Símans árið 2001 með því að kaupa ekki hlutabréf vegna þess að það átti að vera forgangur. Nú neyðist almenningur til að kaupa Símann af sjálfum sér til að reyna að bjarga honum og halda honum áfram í almannaeigu. Ég tel, herra forseti, að fara eigi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sölu Símans þannig að almenningur fái að taka ákvörðunina formlega miðað við skoðanakannanir. Það er hæsta máta eðlilegt og sanngjarnt að þjóðin greiði atkvæði um sölu Símans áður en lengra er haldið.