131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:23]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mikill ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að fá sem mest fyrir Símann en það er m.a. eitt af markmiðum sölunnar. Ég fagna hinum mikla áhuga á Símanum og að nú eigi að leysa úr læðingi milljónatugi sem notaðir verða til að treysta innviði samfélags okkar.

Margir hafa reynt að gera söluna ótrúverðuga. Er það algerlega úr lausu lofti gripið enda hafa andstæðingar sölu Símans ekki getað notað nein rök í málflutningi sínum. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra áðan að Ríkisendurskoðun hefur aðgang að öllum gögnum um söluferlið og við treystum að sjálfsögðu þeirri stofnun Alþingis til að fylgjast með því.