131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:24]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í máli sínu áðan að það ætti jafnt yfir alla að ganga í málinu og það er einmitt það sem ég er að leita eftir. Ég vek athygli á því að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningu minni þar sem spurt var um hvort til greina kæmi að breyta skilmálum fyrir söluna þannig að almenningur eigi strax kost á að kaupa hlutabréfin.

Það gæti verið niðurstaðan að fjöldahreyfingunni takist ekki að safna tilskildum hlutafjárloforðum og í því tilviki er ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé tilbúinn til að breyta skilmálunum. Einkavæðingarnefnd eða ríkisstjórnin er ekki skuldbundin af því að taka þeim tilboðum sem berast og því gætu forsætisráðherra eða einkavæðingarnefnd sem hæglegast auglýst þetta aftur og breytt skilmálunum þegar tíminn er útrunninn.

Hæstv. forsætisráðherra hefur þær skyldur við almenning að gera allt sem í hans valdi stendur til að almenningur komist strax að því að kaupa hlutabréfin eins og almenningur óskar og eins og fjöldahreyfingin gefur til kynna að hópur einstaklinga hefur áhuga á. Því vil ég ítreka þá fyrirspurn sem hér er lögð fram hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að breyta skilmálunum í þeim tilvikum sem ég lýsti áðan.

Það er nauðsynlegt að skýrsla Morgans Stanleys verði birt. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra er jákvæður fyrir því að birta skýrsluna og spyr hæstv. forsætisráðherra hvenær megi eiga von á því að það verði gert. Hæstv. ráðherra talar um að ákveðnar trúnaðarupplýsingar séu í skýrslunni en ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri reiðubúinn til þess að efnahags- og viðskiptanefnd fengi skýrsluna eins og hún liggur fyrir í trúnaði vegna þess að það er afar mikilvægt að eyða allri tortryggni sem gæti ríkt í málinu ef aðeins hluti skýrslunnar verður birtur. Þess vegna legg ég áherslu á að efnahags- og viðskiptanefnd fái að skoða skýrsluna í heild sinni.