131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:26]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég tel að þær trúnaðarupplýsingar sem hér er verið að ræða um, eins og nöfn áhugasamra hugsanlegra kaupenda skipti ekki neinum sköpum í sambandi við mat á málinu. Hins vegar vænti ég þess að skýrslan verði birt að öðru leyti sem fyrst því ég hef lagt á það áherslu að allt ferlið sé eins opið og gagnsætt og kostur er.

Hins vegar er það svo að þegar ferli hefur verið sett í gang verður það að standa. Það er ekki hægt að breyta útboði á Evrópska efnahagssvæðinu í miðju ferli. (JóhS: Það er hægt að endurtaka útboðið.) Það er ekki hægt að breyta því í miðju ferli. Menn verða að vera trúverðugir, það verður að skapa traust í þessu sambandi.

Fyrir liggur að almenningur getur komið að málinu og það er í gangi vinna hjá samtökum sem ætla sér að bjóða í Símann. En ég vil benda hv. þingmanni á að það þarf líka að gæta hagsmuna almennings að fá sem hæst verð fyrir eignir ríkisins. Ég veit ekki betur en hv. þingmenn séu áhugasamir að gera sem mest í nafni ríkisins, framkvæmdir og annað og að halda því fram að það sé ekki að gæta hagsmuna almennings að fá sem hæst verð fyrir Símann — eða áttum við hunsa ráðgjöf Morgans Stanleys og láta sem ekkert væri, láta okkur það lynda þó að miklu lægra verð fengist fyrir Símann? Nei, að sjálfsögðu gerðum við það ekki. Við unnum að málinu samkvæmt ráðgjöfinni, faglega og með hagsmuni almennings í huga.