131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Reiðþjálfun fyrir fötluð börn.

757. mál
[14:44]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Hv. 2. þingmaður Reykv. n., Ásta Möller, beindi til mín fyrirspurn um hvort ég mundi beita mér fyrir því að reiðþjálfun yrði viðurkennt meðferðarform við sjúkraþjálfun fatlaðra barna og nyti greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins.

Fatlaðir hafa um árabil notað hesta í frístundum og hafa margir talið sig hafa gagn af, auk þeirrar ánægju sem það hefur veitt. Meðal annars hafa hestar verið notaðir fyrir fatlaða á Reykjalundi.

Á síðustu árum hafa sjúkraþjálfarar veitt völdum hópi barna með heilalömun reiðþjálfun á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í sumardvöl í Reykjadal í Mosfellsbæ. Þeir telja árangur meðferðarinnar góðan, meðal annars hafi meðferðin góð áhrif á höfuð- og boljafnvægi barnanna auk þess að teygja á og mýkja spastíska vöðva í læri. En spasmi í lærum er oft mikið vandamál hjá börnum með heilalömun og gerir þeim erfitt um vik með hreyfingu. Þá hafa börnin einnig mikla ánægju af þjálfuninni. Þetta er í samræmi við reynslu og rannsóknir af þessari meðferð annars staðar. Víða erlendis hefur þetta meðferðarform verið viðurkennt sem hluti af sjúkraþjálfun og verið greitt að einhverju leyti af opinberum tryggingum á sama hátt og önnur sjúkraþjálfun fyrir tiltekna hópa fólks.

Nú nýverið tókust samningar milli Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Félags sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir sjúkraþjálfun. Í samningnum er tilgreint í hverju meðferð sjúkraþjálfara er fólgin og er reiðþjálfun ekki meðal þeirra meðferðarforma sem þar eru upp talin. Reiðþjálfun er heldur ekki tiltekin í þeim þjónustusamningum sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gert við endurhæfingarstofnanir, þar sem sjúkraþjálfarar starfa. Ekki hafa komið fram sérstakar óskir hvað þetta varðar frá viðkomandi félagi og stofnunum.

Erindi hefur hins vegar borist frá sjúkraþjálfurum sem unnið hafa með reiðþjálfun barna með ósk um að Tryggingastofnun taki þátt í greiðslu fyrir slíka meðferð fyrir tiltekinn hóp barna, á sama hátt og fyrir meðferð hjá sjúkraþjálfurum á stofu. Ráðuneytið hefur það erindi til skoðunar nú og mun leggja mat á árangur og kostnað af reiðþjálfun barna en reiðþjálfun er talsvert kostnaðarsamari en sjúkraþjálfun á stofu. Hvort sú niðurstaða leiði til breytinga á reglum um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í sjúkraþjálfun er of snemmt að segja til um nú. En eins og áður segir erum við í ráðuneytinu að skoða þetta mál.