131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Atvinnumál í Mývatnssveit.

315. mál
[14:52]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég er að fylgja úr hlaði til hæstv. iðnaðarráðherra var lögð fram 11. nóvember árið 2004 og er því orðin töluvert gömul. Hún var að sjálfsögðu lögð fram vegna þess að þá var orðið ljóst að Kísiliðjunni í Mývatnssveit yrði lokað, en henni var lokað 1. desember síðastliðinn eins og menn muna. Við það töpuðust í Mývatnssveit 50 störf og að því er menn telja 30–50 afleidd störf eða 80–100 störf alls í Mývatnssveit, Húsavík, Akureyri og e.t.v. víðar. Þetta er af þeirri stærðargráðu að þetta er svipað og ef 2.700 manns hefðu misst vinnu sína í Kópavogi t.d.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, hefur mikið gerst síðan þessi fyrirspurn var lögð fram og m.a. hafa verið haldnir 14 fundir á hinu háa Alþingi þar sem fyrirspurnum hefur verið svarað. Með því að segja þetta er ég ekki að gagnrýna hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að hafa ekki svarað þessari spurningu fyrr. Ég vil taka það skýrt fram að við höfum verið í góðu sambandi um þetta mál og verið sammála um að geyma þessa fyrirspurn á ýmsum stigum vegna þess að annars gæti það kannski spillt fyrir ýmsum úrlausnarverkefnum sem var verið að vinna að í Mývatnssveit að sögn hæstv. ráðherra.

Þessi spurning sem hér er lögð fram er, eins og ég segi, kannski orðin úrelt. En það má spyrja um ýmislegt annað í þessu sambandi. Það kemur t.d. í ljós núna að 16 manns eru á atvinnuleysisskrá í Skútustaðahreppi, þar af tveir karlar, og það kemur fram að mjög margir karlmenn sem misstu vinnuna sína í verksmiðjunni á aldrinum 30–65 ára hafa farið austur á land að vinna við þá miklu uppbyggingu sem þar er. En það er ekki óskastaða. Það er neyðarúrræði og ekki æskilegt til frambúðar og ekki hægt að treysta á að menn fari svo langan veg sem frá Mývatnssveit og austur til þess að sinna vinnu í 10–13 daga samfellt með löngum vinnudögum. Sveitarstjórn áætlar að tekjur sveitarfélagsins geti dregist saman um 30% vegna þessa máls þó að það sé ekki komið fram af þeim ástæðum sem ég var að nefna hér áðan.

Virðulegi forseti. Í utandagskrárumræðu við iðnaðarráðherra 8. desember síðastliðinn upplýsti hún að það væri búið að taka upp samstarf við sveitarstjórn Skútustaðahrepps. Mig langar að spyrja í hverju það samstarf hafi verið fólgið og hvort það sé enn þá. Þar kom líka fram að nokkrar verkefnahugmyndir væru til skoðunar og mig langar að vita hverjar þær voru og hverjar þær eru. Það kom líka fram að þetta væri gert til að tryggja búsetu í Mývatnssveit (Forseti hringir.) og væri verið að vinna að því með öðrum fagráðuneytum. Mig langar til að fá að vita hvaða fagráðuneyti það séu og hvaða verkefni þar sé um að ræða.