131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Atvinnumál í Mývatnssveit.

315. mál
[14:55]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og rætt var á Alþingi þann 8. desember síðastliðinn og hv. þingmenn þekkja þá hefur rekstri Kísiliðjunnar hf. verið hætt. Kísilgúrvinnsla úr Mývatni heyrir því sögunni til.

Aðdragandi þessa er sá að árið 2000 lét meðeigandi ríkisins í Kísiliðjunni hf., World Minerals, í ljós það álit að rekstri verksmiðjunnar yrði fljótlega hætt. Fyrir því lágu tvær meginástæður, í fyrsta lagi þróun markaðar sem hefur dregist mjög saman og söluverð lækkað, og í öðru lagi stæði verksmiðjan frammi fyrir miklum endurnýjunarkostnaði sem ekki væru forsendur til að ráðast í.

Í þessari erfiðu stöðu var það algjört forgangsverkefni iðnaðarráðuneytisins að leita allra leiða til að afleiðingar yfirvofandi lokunar Kísiliðjunnar yrðu sem mildastar fyrir atvinnu- og menningarlíf og mannlíf í héraðinu. Hugmyndir Allied EFA um kísilduftsverksmiðju féllu vel að þessum sjónarmiðum ráðuneytisins og á grundvelli áætlana þeirra var verksmiðjan seld þeim. Nýir eigendur Kísiliðjunnar unnu í hartnær fjögur ár að þróun framleiðsluferla og rekstri tilraunaverksmiðju í Noregi. Sú þróunarvinna gekk vel og var lokið með góðum árangri. Eftir stóð að tryggja fjármagn til byggingar og rekstrar verksmiðjunnar. Sú vinna var komin á lokastig þegar lykilfjárfestinum snerist hugur á síðustu metrunum. Þetta kom öllum sem að þessu máli komu, öðrum fjárfestum, heimamönnum og ráðuneytinu, algjörlega að óvörum.

Við því varð þó ekkert gert en strax hafist handa við að leita annarra leiða til atvinnuuppbyggingar og þá fyrst og fremst horft til þess að nýta byggingar og innviði verksmiðjunnar sem gerði staðsetningu við Mývatn álitlega. Alls voru skoðaðir átta kostir. Fjórir þeirra voru fljótlega metnir álitlegastir og vilji er til þess að styðja við bakið á þeim öllum með einum eða öðrum hætti. Einn þessara kosta var þó metinn sýnu bestur en það er bygging verksmiðju sem framleiðir vörubretti úr endurunnum pappír og pappa. Hér er um að ræða nýjung sem byggir á einkaleyfum og reyndum framleiðsluaðferðum. Framleiðslan er umhverfisvæn og fellur því vel að ímynd Mývatns. Frumkvöðlarnir hafa kynnt þessa framleiðslu fyrir heimamönnum og undirrituð hefur verið viljayfirlýsing á milli landeigenda Reykjahlíðar ehf., iðnaðarfrumkvöðlanna, heimamanna og iðnaðarráðuneytisins um að ganga til samstarfs sem hefur að það markmiði að í húsnæði Kísiliðjunnar við Mývatn verði starfrækt verksmiðja sem framleiði vörubretti úr endurunnum pappírsafurðum.

Í viljayfirlýsingunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Áætlanir gera ráð fyrir að verksmiðjan taki til starfa í tveimur áföngum og allt að 18 manns fái þar vinnu í lok fyrsta áfanga en færri bætist við í þeim síðari. Eigendur Kísiliðjunnar hafa selt landeigendum Reykjahlíðar ehf. þær byggingar sem nýtilegar eru fyrir hina nýju iðnaðarstarfsemi. Jafnframt eru viðræður hafnar á milli iðnaðarfrumkvöðlanna og landeigenda Reykjahlíðar ehf. um sameiginlega aðkomu þeirra að óstofnuðu félagi um starfsemina. Stefnt er að því að starfsemin geti hafist á þessu ári.“

Við þetta er aðeins því að bæta að iðnaðarráðuneytið hefur falið Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins að ganga til samninga við frumkvöðlana um kaup á 200 milljónum kr. í hlutafé sem yrði framlag ríkisins í fjármögnun þessa verkefnis.

Hvað varðar atvinnuástandið í Mývatnssveit þá keyra, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, margir karlmenn austur á land til að starfa þar og auðvitað er það ekki lausn til frambúðar heldur vonandi tímabundin. Ég get sagt að ástandið er í sjálfu sér ekki eins slæmt og maður hefði getað ætlað miðað við það að þessi stóri vinnustaður þurfti að loka og hætta starfsemi. Fólkið sýnir þarna mikla þolinmæði og við vitum öll að núverandi ástand verður ekki til frambúðar. Því bind ég miklar vonir við að af þessu verkefni sem ég hef hér lýst geti orðið.