131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Atvinnumál í Mývatnssveit.

315. mál
[15:04]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ef ég byrja á að svara því sem kom fram hjá hv. þingmanni núna í lokin tel ég ekki að það muni koma til þess að ríkið kaupi þetta fyrirtæki. Það er ekki þannig nú á dögum að ríkið hafi frumkvæði að rekstri sem þessum. Þetta er iðnaðarstarfsemi og miðað við það að einkaaðilar töldu reksturinn ekki geta gengið og ekki vera arðbæran þegar þessir nýju eigendur komu að, Allied EFA, tel ég ekki líkur á því að ríkið hafi frekari möguleika á því að láta þessa starfsemi ganga upp. Vissulega eru þetta allt saman mikil vonbrigði en ég held að við bætum okkur ekkert á að vera að tala um fortíðina í þessum efnum. Það er mikilvægt að tala um framtíðina og það verkefni sem nú er efst á baugi.

Ég vil þá tala aðeins skýrar en ég gerði áðan ef það hefur eitthvað misskilist. Það er ekki búið að taka ákvörðun um að Nýsköpunarsjóður kaupi hlutafé fyrir 200 millj. kr. í þessari framleiðslu, heldur er það til skoðunar hjá Nýsköpunarsjóði. Mér er kunnugt um að þeir eru að fara yfir þetta mál á faglegum forsendum og hafa m.a. skoðað starfsemi sem er í raun tilraunastarfsemi og fer fram erlendis. Ég tel að miðað við allt það sem komið hefur fram í málinu séu miklar líkur á því að af því verði að ríkið taki þarna þátt í starfseminni með þessu móti.

Til að brúa þetta bil hefur verið í gangi starfsemi í Mývatnssveit sem hefur verið styrkt af stjórnvöldum. Hún er nokkuð nýstárleg og heitir „Snow Magic“. Þar hefur verið mikið byggt úr snjó og þar fram eftir götunum. Ég veit að sumum finnst þetta kannski svolítið fáránlegt en engu að síður (Forseti hringir.) er þetta eitt af því sem við þó höfum reynt að gera. Eins mætti nefna kvikmyndaupptöku sem þarna hefur farið fram á þessu tímabili.