131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:09]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við gerð vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins var við það miðað að starfsemi hans næði ekki einungis til Eyjafjarðarsvæðisins, heldur einnig til annarra svæða á Norðurlandi, þar með talið til Norðurlands vestra. Þegar unnið var að þeim samningi komu m.a. að því starfi aðilar á vestanverðu Norðurlandi þar sem ekki var ætlunin að takmarka starfsemina við Eyjafjarðarsvæðið, heldur skyldi starfsemin ná beint eða óbeint til Norðurlands í heild enda byggir eðli og starfsemi vaxtarsamninga á öflugu samstarfi á tiltölulega stórum svæðum.

Markmið vaxtarsamninga er að efla byggðarkjarna með því að byggja á styrkleikum svæða og skilvirku samstarfi einkaaðila og opinberra aðila. Útfærslan er að erlendri fyrirmynd og nokkuð nýstárleg. Áhersla er lögð á samkeppnishæfni atvinnulífs þar sem byggt er á markaðstengdum aðgerðum, stefnumörkun fyrir vaxtargreinar á svæðinu, samstarfi aðila á viðkomandi sviði með netsamstarfi, klösum og stuðningsverkefnum.

Eitt meginatriðið í starfsemi vaxtarsamninga er að efla samstarf á viðkomandi svæði. Því er afar mikilvægt að fyrirtæki og aðilar á Norðurlandi vestra, sem og Norðurlandi sem vilja taka þátt í starfsemi vaxtarsamnings Eyjafjarðar, komi þeim áhuga á framfæri. Gert er ráð fyrir því í vaxtarsamningi Eyjafjarðar að nýir aðilar geti komið að stjórn þess samnings sé fyrir því áhugi, svo sem á Norðurlandi vestra. Þess má geta að aðilar á Norðurlandi, t.d. Ferðamálasamtök Norðurlands sem ná til alls Norðurlands, og háskólinn á Hólum taka þegar þátt í starfsemi vaxtarsamnings. Starfsemi hans verður kynnt frekar á öllu Norðurlandi á næstunni.

Á næstunni er einnig fyrirhugað að kynna vaxtarsamninginn á Norðurlandi vestra og þá möguleika sem hann opnar fyrir aðila á svæðinu. Af framangreindum ástæðum er ekki gert ráð fyrir sérstökum vaxtarsamningi fyrir Norðurland vestra þar sem þegar er gert ráð fyrir slíkum möguleika innan vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Slíkt kallar á samræmingu, samvinnu og samninga milli atvinnuþróunarfélaga á svæðinu við vaxtarsamning Eyjafjarðar. Þessu til viðbótar er þess að geta að það er mun meiri ávinningur fyrir minni svæði að tengjast vaxtarsamningum nærliggjandi svæða, stærri svæða, og nýta sér ávinning af slíku starfi en með gerð smárra vaxtarsamninga á afmörkuðum svæðum, enda umfang og stjórnun slíkra samninga nokkuð viðamikið. Komi fram að eftirspurn eftir þjónustu vaxtarsamningsins verði meiri en ráð er fyrir gert í upphafi munu stjórnvöld endurmeta stöðu, rekstur og stuðning við starf á þessu sviði.

Hvað varðar svar við síðari spurningunni er það að segja að formlegt erindi um það efni hefur ekki borist ráðuneytinu en þessi mál og önnur tengd hafa verið rædd óformlega á fundum, m.a. við stjórn Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Ráðuneytið er hins vegar ávallt til viðræðu um atriði er styrkt geta stöðu Norðurlands vestra á þessu sviði ef eftir því verður óskað.