131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:14]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera þessa fyrirspurn fram og tek undir þau sjónarmið sem fram koma í fyrirspurninni.

Ég hef eins og hv. þingmaður Jóhann Ársælsson verulegar efasemdir um að við núverandi aðstæður sé mögulegt að líta svo á að Skagafjörður og Eyjafjörður séu eitt atvinnusvæði. Ég held að huga þurfi að endurbótum á samgöngum til að gera slíkt mögulegt og það er sorglegt til þess að vita að Héðinsfjarðargöng munu ekkert leggja af mörkum til að gera Eyjafjörð og Skagafjörð að einu atvinnusvæði. Ég hygg að það væri skynsamlegt að skoða möguleika svæðisins á Norðurlandi vestra til orkuframleiðslu og notkunar þeirrar orku með stóriðju og ég hygg að iðnaðarráðuneytið gerði vel í því að styrkja þann möguleika sem liggur í augum uppi á álveri við Húnaflóa með orkuframleiðslu úr Skagafirði og Húnavatnssýslunum.