131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:15]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki verra en vant er þegar rætt er við hæstv. byggðamálaráðherra um Norðurland vestra. Hún beinir alltaf sjónum að Eyjafjarðarsvæðinu en fyrirspurn mín laut ekki einungis að Skagafirði, hún lýtur að Norðurlandi vestra og ég ætla að benda hæstv. ráðherra á að það eru greiðari samgöngur suður til Reykjavíkur úr Vestur-Húnavatnssýslu en til Akureyrar enda sækja Húnvetningar þjónustu sína þangað.

Það er að sjálfsögðu gott mál og sjálfsagt og menn gera það að eigin frumkvæði að vinna saman að þeim málum þar sem það er æskilegt og eðlilegt, eins og t.d. í ferðamálum og starfsemi háskólana, í menntamálum að ýmsu leyti, en að öðru leyti þarf að sinna þessu kjördæmi sérstaklega, og ekki hvað síst Húnavatnssýslunum þar sem atvinnulíf er mjög bágborið, meðaltekjur líklega þær lægstu á landinu enda sauðfjárrækt mjög mikil. Það eina sem getur komið þessu svæði til bjargar er að ríkisvaldið aðstoði sveitarfélögin við uppbyggingu atvinnulífs. Þar hefur skollaeyrum verið skellt við og fólk í rauninni dregið á asnaeyrunum með því að taka því ljúflega á fundum en gera svo ekki neitt.

Þetta er ósvinna, hæstv. forseti, og það er óskiljanlegt að byggðamálaráðherra skuli ekki láta sig varða öll svæði landsins jafnt, heldur verða ber að því hvað eftir annað að beina sjónum einungis að örfáum stöðum á landinu — og alltaf sömu stöðunum.