131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:17]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera fullyrðingar sem eiga ekki rétt á sér. Hv. þingmaður heldur því fram að ég geri byggðarlögum mishátt undir höfði og sniðgangi sérstaklega ákveðið kjördæmi, eða mér finnst hún vera að segja það. Því fer bara víðs fjarri.

Það er hins vegar mikilvægt að sveitarfélögin á viðkomandi svæðum standi sig og að þau hafi eitthvert frumkvæði gagnvart ríkisvaldinu ef þau hafa áhuga á samstarfi við það. Þegar um það hefur verið beðið af hálfu sveitarfélaga á þessu svæði að eiga fundi með okkur í iðnaðarráðuneytinu hefur að sjálfsögðu verið orðið við því. Það er ekki lengra síðan en í gær að ég átti fund með sveitarstjórnarmönnum úr Húnavatnssýslu þannig að það stendur ekki á því. Það vil ég að sé algerlega klárt.

Ég ítreka að það er ekki endilega það besta fyrir Norðurland vestra að farið verði í vaxtarsamningsvinnu fyrir það svæði einangrað. Það er það sem ég vil leggja mikla áherslu á. Það starf býður upp á að það séu sterkir aðilar í hópnum og þó svo að Tröllaskagi sé erfiður yfirferðar, bæði hvað varðar samgöngur og andlega, er það þannig með þetta samstarf eins og klasasamstarf að það er ekki spurning um að keyra á milli svæða. Þetta er samstarf sem á sér að miklu leyti stað um netið. Svo vil ég líka taka fram að því miður hafa fyrirtæki og aðilar á gamla Norðurlandi vestra verið mjög óduglegir að sækja um styrki, t.d. í sjóðinn Átak til atvinnusköpunar.