131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:29]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er örugglega ástæða til að skoða málefni Byggðastofnunar og ég fagna því að verið sé að gera það. Það eru mörg verkefni sem Byggðastofnun annast sem þarf að annast til framtíðar en auðvitað er ekkert endilega víst að það sé í bestum farvegi eins og það er núna.

Hvað varðar lánastarfsemina hef ég haft þá skoðun nokkuð lengi að miklu nær væri að hið opinbera beindi sér að því að styrkja aðila á landsbyggðinni en að standa í einhverri lánastarfsemi. Bankakerfið gæti komið með meira fjármagn út á land sem mundi gerast þegar menn fengju styrki til tiltekinna verkefna. Þannig væri hægt að koma betri rekstrargrundvelli undir þær nýjungar eða atvinnustarfsemi sem menn vildu styrkja en annars er til staðar. Þá væru bankarnir tilbúnir til að koma með í slaginn.