131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Kannanir á viðhorfum til orkufrekrar stóriðju.

772. mál
[15:42]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Íbúar á þeim svæðum þar sem stóriðja hefur verið sett niður hafa svarað því mjög afdráttarlaust að þeir vilja að slík starfsemi sé til staðar. Þeir hafa svarað því með því að alls staðar þar sem stóriðja hefur verið sett niður, hvort sem er hér á höfuðborgarsvæðinu, norðan Hvalfjarðar eða núna á Austfjörðum, hefur það leitt til fólksfjölgunar. Þetta segir okkur að fólk vill vinna í stóriðjunni, enda er það þannig sem ég og hv. þingmaður vitum mætavel, sem erum þingmenn Norðvesturkjördæmis þar sem stóriðja er einmitt staðsett, að fólk sækist eftir vinnu á þessum stöðum. Þetta eru góðir vinnustaðir og þess vegna eigum við að einhenda okkur í að reyna að efla stóriðju þar sem forsendur eru fyrir því að hún geti risið, m.a. á hinu gamla Norðurlandi vestra.

Við ályktuðum um það á Alþingi að það ætti að setja stóriðju sem næst upptökum meginorkuöflunarsvæðisins. Þær forsendur eru til staðar á Norðurlandi vestra, þess vegna á að rísa þar stóriðja. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður (Forseti hringir.) muni leggjast gegn því að slík mikilvæg uppbygging á atvinnulífinu á þessu svæði (Forseti hringir.) geti átt sér stað. Það er mikil þörf á slíkri uppbyggingu.