131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Kannanir á viðhorfum til orkufrekrar stóriðju.

772. mál
[15:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stóriðja er mjög afstætt hugtak. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson ætti að vita hver hefur verið stóriðja Norðvesturkjördæmis fram til þessa og líka hver stóriðja Norðausturkjördæmis hefur verið fram til þessa. Það er að sjálfsögðu sjávarútvegur, en einnig landbúnaður.

Því miður er það þannig, virðulegi forseti, að þeir flokkar sem nú eru við völd á Íslandi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa markvisst valdið gríðarlegu tjóni á sjávarútvegi í þessum landshlutum með sínu miðstýrða, sósíalíska kvótakerfi. Það er bara staðreynd. Þar á verður ekki gerð bragarbót fyrr en þessum flokkum hefur verið komið frá völdum, ég er alveg búinn að gera mér grein fyrir því eftir að hafa setið á Alþingi í tvö ár. Það þarf að gera nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi þannig að litlu sjávarþorpunum umhverfis landið verði á ný færður sá sjálfsagði réttur sem þau höfðu mann fram af manni, þ.e. að nýta sínar bestu og dýrmætustu náttúruauðlindir á sínum eigin forsendum án afskipta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.