131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Kannanir á viðhorfum til orkufrekrar stóriðju.

772. mál
[15:47]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að ég verði að segja það einu sinni enn að það er ekki þannig að ég bindi mig við einn þátt, sem sé álver. Það er engin hugmynd svo vitlaus í atvinnumálum að mínu mati að ekki sé ástæða til að skoða hana þannig að það er allt uppi á borðinu í sambandi við atvinnukosti á landsbyggðinni. Það er útúrsnúningur þegar hv. þingmaður staglast á þessu. Þetta mundi hann vita ef hann hefði getað mætt á einhvern af þeim fundum sem ég boðaði til á Norðurlandi nýlega.

Svo vil ég leiðrétta eitt, það er talsverður áhugi á Norðurlandi fyrir álveri. Það er vægt til orða tekið og þetta veit hv. þingmaður líka.

Af því að hann talaði um störf fyrir hámenntað fólk er það þannig t.d. fyrir austan að margir tugir háskólamenntaðra manna fá vinnu við álverið á Reyðarfirði. 70–80 háskólamenntaðir einstaklingar munu fá þar vinnu þegar sú starfsemi hefst. Þessu þarf líka að halda til haga.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er náttúrlega með sjávarútvegsrulluna sína og talar um að ríkisstjórnin sé með sósíalískt kvótakerfi. Það kerfi sem er hér við lýði er einmitt markaðskerfi. Hins vegar biður Frjálslyndi flokkurinn um sósíalískt kerfi því að hann biður um að kvótanum verði útdeilt á staðina af hálfu ríkisvaldsins og síðan verði það bara að ráðast hvort sú starfsemi sé (Gripið fram í.) rekstrarbær eða ekki. (MÞH: …sókn í sjávarútvegsmálum sem þú ert að tala um.)

Í sambandi við stóriðju almennt í Norðvesturkjördæmi sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það hvar hugsanlegt álver mundi rísa og þess vegna tjái ég mig ekki frekar um það hér, enda er það ekki mitt að ákveða það.