131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu.

773. mál
[15:57]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér þykir hæstv. ráðherra taka þessu máli af óþarflegri léttúð. Hún ber þetta saman við daglegar neysluvörur. Ég vil ekki að gera lítið úr mikilvægi þeirra en þakka innlegg hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem ég tel að hafi verið miklum mun málefnalegra en hæstv. ráðherra.

Eldsneyti er einn af grunnþáttum í atvinnulífi okkar og daglegu lífi. Ég hef verið á fundum ferðaþjónustunnar t.d. á Vestfjörðum og á Norðausturlandi þar sem látnar hafa verið í ljósi þungar áhyggjur af því að olíuafgreiðslustöðvum fækkar og afgreiðslutími þeirra styttist. Það er ekki hægt að fá afgreitt nema eiga sérstök kort eða þá greiðslukort og þetta getur takmarkað mjög þjónustustig þessara svæða fyrir ferðaþjónustu. Ég tel alveg ástæðulaust af hæstv. ráðherra sem er líka atvinnu- og byggðamálaráðherra að fjalla um þetta mál af þeirri léttúð sem ráðherrann gerði.

Þetta er líka öryggismál, sum byggðarlög eru þannig sett að þau geta einangrast af veðurfarslegum völdum, og rafmagn og sími geta farið eins og dæmið frá Vopnafirði sannar. Það kom líka fram í fréttinni að ekki hefði verið hægt að dæla af viðkomandi eldsneytisdælu handvirkt. Þess vegna er ég að draga athyglina að þessari grundvallaralmannaþjónustu þó að hún sé í höndum einkaaðila, að þeir hafi samfélagslegum skyldum að gegna sem ég tel mikilvægt að gæta að og hafa í huga, m.a. þau atriði sem ég nefndi.