131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Hellisheiði og Suðurstrandarvegur.

672. mál
[17:03]

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson) (S):

Frú forseti. Frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram hefur mikið vatn runnið til sjávar og m.a. hefur samgönguáætlun 2005–2008 litið dagsins ljós. Það kunna því að vera gögn sem ég fer hér yfir sem hafa tekið nokkrum breytingum frá því að sú áætlun kom fram.

Það er ánægjulegt að sjá að framkvæmdir eru hafnar í Svínahrauni þar sem nú verður lagður 2+1 vegur frá Skíðaskálabrekku vestur fyrir Litlu kaffistofu ásamt mislægum gatnamótum við Þrengslaveg. Með þessari framkvæmd leggjast af þrjár afleitar beygjur.

En betur má ef duga skal þar sem umferðaraukningin á leiðinni yfir Helllisheiði hefur verið langt umfram það sem allar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig umfram það sem 1+1 vegur ber þegar umferðin er hvað mest. Þessa auknu umferð má m.a. rekja til breyttra atvinnuhátta á svæðinu, stóraukinnar umferðar ferðamanna, innlendra sem erlendra, þar með talin sístækkandi sumarhúsabyggð fyrir austan fjall auk mikilla afþreyingarmöguleika af margvíslegum toga. Einnig má benda á að Orkuveita Reykjavíkur er nú að hefjast handa við byggingu Hellisheiðarvirkjunar og mun leggja áherslu á að kynna ferðamönnum virkjunina og reiknað er með allt að 250 þúsund heimsóknum gesta árlega.

Einnig er augljóst að íbúafjölgun er veruleg á Stór-Árborgarsvæðinu, sem ég kalla svo, en íbúafjölgun hefur ekki fyrr verið neitt í líkingu við það sem nú er og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Af þessu má ráða að vegurinn yfir Hellisheiði verður að fá verulegt fjármagn næstu árin til að anna þessu mikla álagi. Þá er og ljóst að tvær aðrar leiðir frá stórhöfuðborgarsvæðinu létta á umferðarþunga yfir Hellisheiðina en það er Gjábakkavegur, sem nú er inni í samgönguáætlun, og svokallaður Suðurstrandarvegur. Sá síðarnefndi er kominn að hluta í útboð og mikilvægt er að það verkefni haldi áfram eins og áætlanir hafa gert ráð fyrir. Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra:

1. Hver er áætlaður kostnaður við að

a. bæta þriðju akrein við 3 km kafla þar sem Hellisheiði er hæst,

b. bæta þriðju akrein við 5,5 km kafla frá Litlu kaffistofunni að Lögbergsbrekku?

2. Hver er áætlaður kostnaður við að leggja Suðurstrandarveg frá Þorlákshöfn í Selvog eftir að lokið hefur verið tengingu við Þorlákshöfn?