131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Hellisheiði og Suðurstrandarvegur.

672. mál
[17:06]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir að fá tækifæri til að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður ber hér upp vegna þeirrar miklu umræðu sem farið hefur fram um nauðsynlegar vegabætur á þessu svæði, þ.e. yfir Hellisheiði annars vegar og um Suðurstrandarveg hins vegar. Þær umræður hafa farið nokkuð geyst, að mér hefur fundist, og margir hafa talað eins og ekkert væri um að vera í framkvæmdum á þessu svæði, en eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda eru í gangi framkvæmdir á báðum þessum svæðum.

Spurt er í fyrsta lagi hver sé áætlaður kostnaður við að bæta þriðju akrein við 3 km kafla þar sem Hellisheiði er hæst.

Svar mitt við þeirri spurningu er að þar sem hvorki liggur fyrir hönnun á hugsanlegri breikkun né þversniðsmælingar af núverandi vegi er stuðst við grófa áætlun, samanber svar við fyrirspurn frá Björgvini G. Sigurðssyni á þskj. 862, mál 574. Þar er gefinn upp áætlaður kostnaður á hvern kílómetra um 34 millj. kr. Þessi umræddi kafli á Hellisheiðinni er um 2,7 km á lengd og ætti að vera einna ódýrast að breikka hann á þessari leið. Kostnaður gæti því verið rétt undir 100 millj. kr. að endurbæta þennan tæplega 3 km vegkafla á Hellisheiðinni þar sem hún er hæst.

Í öðru lagi er spurt hver sé kostnaðurinn við að bæta þriðju akrein við 5,5 km kafla frá Litlu kaffistofunni að Lögbergsbrekku.

Svar mitt er að með hliðsjón af ofangreindu og því að breikka þarf eina brú á þessum kafla, megi álíta að kostnaður verði rúmlega 200 millj. kr. við endurbætur á þessum vegkafla. Með vegriði milli aksturstefna má áætla að þessi kostnaður hækki um u.þ.b. 10 millj. kr. á hvern kílómetra.

Í þriðja lagi er spurt hver sé áætlaður kostnaður við að leggja Suðurstrandarveg frá Þorlákshöfn í Selvog eftir að lokið hefur verið tengingu við Þorlákshöfn.

Frá Selvogi að fyrirhuguðu hringtorgi við Þorlákshöfn eru um 15 km. Kostnaður við þennan áfanga ásamt hringtorgi og lýsingu við það er áætlaður um 360 millj. kr. Þetta er það svar sem ég vil gefa hv. fyrirspyrjanda um kostnað við endurbætur á þessum vegkafla.

Eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns og fyrirspyrjanda eru nú þegar hafnar framkvæmdir í Svínahrauni eða Kristnitökuhrauni, eins og við munum væntanlega nefna það hraun ekki síður. Þær framkvæmdir eru geysilega mikilvægar og þar er um að ræða endurbætur sem fela í sér mislæg gatnamót og tengingu við Þrengslaveginn. Þessi breyting mun stytta leiðina yfir Hellisheiði. Síðan er búið að bjóða út framkvæmdir við fyrsta áfangann á Suðurstrandarvegi þannig að unnið er fullum fetum að endurbótum á þessu svæði.

Vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið þar sem menn hafa haft uppi stór orð um svik vegna framkvæmda á Suðurstrandarvegi er algerlega ljóst, og ég undirstrika það hér og nú, að sú mikla áhersla og í rauninni sú mikla áherslubreyting sem hefur orðið þar sem harðari krafa er gerð um að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar og flýta framkvæmdum á Hellisheiði þá er alveg ljóst og ætti hvert mannsbarn að sjá hvar sem er á landinu að á sama tíma og við erum að draga úr framkvæmdum í vegagerð hljótum við (Forseti hringir.) að leggja áherslu á þær framkvæmdir sem við erum að vinna að núna. Menn geta því ekki gert ráð fyrir að Suðurstrandarvegur fái einhvern sérstakan forgang umfram þær framkvæmdir sem ég nefndi fyrr.