131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Hellisheiði og Suðurstrandarvegur.

672. mál
[17:12]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er engu líkara en að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki hlustað á þau loforð sem búið er að spila undanfarna daga þar sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra lofuðu því fyrir kosningar að Suðurstrandarvegur yrði kláraður innan 18 mánaða og það ætti ekki að hafa nein áhrif á aðrar vegaframkvæmdir í því kjördæmi. Ég held að hæstv. samgönguráðherra ætti að hlusta betur á þau orð sem þar voru sögð.

Mér finnst undarlegt geðleysi í hv. þm. Kjartani Ólafssyni að standa hér og spyrja hvað kosti að leggja spotta af þessum sama vegi, Suðurstrandarvegi, sem ætti að vera búinn ef staðið hefði verið við þessi kosningaloforð. Ég held að nær væri að standa hér og spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra ætlar sér, með þeirri þingsályktunartillögu sem búið er að leggja fram um samgöngumál, að svíkja þau loforð sem hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra gáfu kjósendum og íbúum á þessu svæði?

Að endingu vil ég segja, út af fréttaflutningi undanfarna daga, að það er alrangt sem fram hefur komið, m.a. hjá hæstv. forsætisráðherra, að þingmenn Suðurkjördæmis hafi sammælst um að hætta við framkvæmdir á Suðurstrandarvegi.