131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Hellisheiði og Suðurstrandarvegur.

672. mál
[17:14]

Fyrirspyrjandi (Kjartan Ólafsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þau svör sem hér voru gefin. Það kom reyndar fram í þeim að þetta væri gróf áætlun um þessa vegspotta, sem svo voru nefndir hér áðan, efst á Hellisheiðinni en með því að ná þeim erum við að sjá fram á veginn frá Hveragerði vestur fyrir Lögbergsbrekku sem 2+1 veg. Það er auðvitað mikil vegbót fyrir utan svo það að við fáum mislæg gatnamót, það er augljóst.

En betur má ef duga skal, eins og ég sagði. Það þarf að hyggja að langtímaáætlun hvað þennan veg varðar og auðvitað horfum við til lengri tíma um það að þessi vegur verði 2+2 og þá að Selfossi. En það er ekki inni á þeirri áætlun sem er verið að kynna hér.

Gagnvart Suðurstrandarvegi er rétt að það komi hér fram að fjármunir hafa verið lagðir í þann veg og til eru fjármunir í hann sem mundu duga fyrir áfanganum frá Þorlákshöfn að Selvogi. Það eru u.þ.b. þeir fjármunir sem hafa verið settir í veginn. Ég lít svo til að það fjármagn liggi fyrir og að einvörðungu sé verið að fresta þeim framkvæmdum. (MÞH: Hvað með loforðin?) (Gripið fram í.)