131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Tafir á vegaframkvæmdum.

736. mál
[17:26]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. samgönguráðherra svaraði hér spurningum um hvað gæti valdið töfum á vegaframkvæmdum og hvernig með væri farið. Hæstv. ráðherra nefndi Suðurstrandarveg sem varð til þess að ég gat ómögulega á mér setið að ræða aðeins þann veg. Hæstv. ráðherra sagði að yfirleitt væru fjárveitingar færðar á milli ára ef um tafir væri að ræða á vegaframkvæmdum þar sem búið væri að ákveða fjármuni.

Örlög sumra fjárveitinga verða að þær koma ekki til baka. Þær eru teknar að fullu og öllu aftur af hæstv. ráðherra og ríkisstjórn, og fjármunir sem búið er að lofa skila sér þá ekki ef um tafir verður að ræða og vegurinn sleginn af um langt árabil, eins og nú eru að verða örlög þessa Suðurstrandarvegar.

Það er mikill munur á því þegar tafir verða á vegi og þingmenn ákveða að taka að láni fjármuni sem ætlaðir voru í eina framkvæmd og setja í aðra, í trausti þess að það sé eitthvað að marka hæstv. ráðherra þegar þeir gefa út fjárveitingar, og því að slá framkvæmdir af að fullu um langan tíma.