131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Æskulýðsmál.

782. mál
[18:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hefur beint til mín fimm spurningum er lúta að íþrótta- nei, æskulýðsmálum og æskulýðsstarfi.

Varðandi fyrstu spurninguna: „Hvað líður endurskoðun laga um æskulýðsmál?“ er rétt að geta þess að síðla árs 2003 var skipuð nefnd á vegum ráðuneytisins sem fékk það hlutverk að gera tillögur um nýja löggjöf um æskulýðsmál. Í erindisbréfi nefndarinnar var m.a. tekið fram að nefndin hefði til hliðsjónar við vinnu sína skýrslu og tillögur nefndar sam vann úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi fyrir ráðuneytið.

Nefndin hefur skilað mér tillögum sínum um frumvarp að nýjum æskulýðslögum með ítarlegri greinargerð. Nefndina skipuðu bæði fulltrúar ráðuneytisins sem sinna æskulýðsmálum en jafnframt fulltrúar þeirra sem best þekkja til æskulýðsmála hér á landi, eins og til að mynda Ásta Möller, varaþingmaður og formaður nefndar sem vann skýrsluna um úttekt á á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks, Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri í Reykjanesbæ, og Ólafur Jóhannsson sóknarprestur.

Frumvarp um ný æskulýðslög eru nú til frekari skoðunar innan ráðuneytisins en þau munu ekki verða lögð fyrir yfirstandandi þing.

Önnur spurningin er: „Hvert á hlutverk æskulýðsráðs að vera og hvernig á að velja í ráðið?“ Hlutverk þess er samkvæmt tillögum nefndarinnar nokkuð breytt frá núgildandi lögum og meiri áhersla er nú lögð á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk þess gagnvart málaflokknum og er starfsemi æskulýðsráðs afmörkuð betur en áður. Skal ráðið vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi, leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, taka þátt í erlendu samstarfi í æskulýðsmálum, stuðla að þjálfun og menntun félagsforustufólks og leiðbeinenda og stuðla að æskulýðsrannsóknum auk annarra þeirra verkefna sem fjallað er um í lögunum nú þegar eða sem ráðuneytið hugsanlega kann að fela þeim. Æskulýðsráð skal skipað tíu fulltrúum, sex skulu valdir af fulltrúum æskulýðssambanda, tveir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ráðherra skipi síðan tvo menn, formann og varaformann. Hefð hefur skapast um að fulltrúar æskulýðsfélaga hafi verið tilnefndir á fundi æskulýðsráðs og hefur það fyrirkomulag gefist ágætlega að mínu mati.

Varðandi þriðju fyrirspurnina: ,,Hvaða samvinna hefur verið höfð við sveitarfélögin um endurskoðun laganna?“ þá er rétt að geta þess að við undirbúning að frumvarpinu hafði nefndin náið samráð við öll helstu samtök á sviði æskulýðsmála auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk þess sem drög að frumvarpinu voru kynnt þeim á formlegum fundi. Þá sat í nefndinni Stefán Bjarkason sem starfar að æskulýðsmálum fyrir Reykjanesbæ.

Fjórða fyrirspurnin er: „Hver skipar stjórn æskulýðssjóðs og eftir hvaða vinnureglum er farið við þá skipun?“ Samkvæmt reglum um æskulýðssjóð, nr. 113/2004, er stjórn sjóðsins skipuð sömu mönnum og skipa Æskulýðsráð ríkisins. Það skipa frá 1. janúar 2005 Júlíus Aðalsteinsson formaður, skipaður án tilnefningar, en aðrir aðalfulltrúar eru Eyrún Björk Jóhannsdóttir, Stefán Már Gunnlaugsson og Einar Lee, skipuð samkvæmt kosningu kjörfundar æskulýðssamtaka, og Stefán Bjarkason, skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er síðan hlutverk mitt samkvæmt reglum sjóðsins að úthluta styrkjum úr sjóðnum að fengnum tillögum stjórnar.

„Hvers vegna hafa 30 af 57 úthlutunum úr æskulýðssjóði runnið til trúarlegs starfs frá því að sjóðurinn var stofnaður 2004?“ spyr hv. þingmaður. Samkvæmt reglum sjóðsins er það hlutverk æskulýðssjóðs að styrkja sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra, þjálfun æskulýðsleiðtoga og leiðbeinenda til virkrar þátttöku í æskulýðsstarfi, nýjungar og tilraunir í félagsstarfi barna og ungmenna og samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sviði félagsstarfa. Styrkir eru ekki veittir til árvissra eða fastra atburða í félagsstarfi svo sem þinga, móta eða þess háttar atburða eða ferðahópa. Umsóknir í æskulýðssjóð og sem falla undir reglur sjóðsins hafa verið hlutfallslega fleiri frá kristilegum æskulýðsfélögum. Til að mynda voru við síðustu úthlutun alls 39 umsóknir sem féllu undir reglurnar. Þar af voru umsóknir frá kristilegum æskulýðsfélögum rúmlega helmingur þeirra eða alls 20 umsóknir. Við úthlutun fengu 16 kristileg samtök styrkveitingu, þ.e. 41%, og önnur samtök því 59% svo sem skátar, Félag framhaldsskólanema, samráðshópur ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna, björgunarsveitir o.fl.