131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Æskulýðsmál.

782. mál
[18:11]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mismæli og ekki mismæli í upphafi máls míns. Vissulega eigum ekki að skammast okkur fyrir að tala um íþróttir og æskulýðsmál í sömu andrá. Það er nú einu sinni svo að íþróttir eru tómstundir en aftur á móti er það ekki svo að allar tómstundir séu íþróttir og við verðum að hafa það í huga. Við vitum mætavel að íþróttir falla ákveðnum hópum en svo eru aðrar tegundir tómstunda sem henta öðrum betur. Við verðum einfaldlega að taka tillit til þess í okkar kerfi að bjóða tækifæri fyrir alla sem taka tillit til þarfa einstaklingsins hverju sinni. Ég held að okkur hafi tekist að byggja upp slíkt kerfi og er þá sérstaklega með sveitarfélögin í huga.

Ég vil undirstrika að nefndin hafði mjög náið samstarf við sveitarfélögin og það var líka starfsmaður sveitarfélaganna í þeirri nefnd sem skipuð var og falið var það hlutverk að móta tillögur fyrir nýtt frumvarp til æskulýðslaga. Við erum að fara vel yfir það. Mikið samráð var haft og margir fundir haldnir. Þegar frumvarpið kemur síðan til kasta þingsins verða þessir aðilar að sjálfsögðu kallaðir aftur fyrir nefndina og það fá allir greiðan aðgang að því að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri við þá sem fara yfir málið á hinu háa Alþingi þannig að allra eðlilegra leikreglna er gætt.

Varðandi umsóknir og þá sem sækja um styrki þá held ég að rétt sé að hafa það hugfast, hvort sem það er í æskulýðssjóðnum eða annars staðar í hinu margháttaða og oft flókna og allt of flókna sjóðakerfi ríkisins, að enginn má ganga að því gefnu að menn eigi sérstakt tilkall til þess fjármagns sem í sjóðum ríkisins er hverju sinni. Að sjálfsögðu ber okkur sem förum með stjórnun og stefnumótun að hafa það hugfast að fara reglubundið yfir úthlutanir og yfir þær reglur sem einstaklingar og lögaðilar þurfa að fara eftir varðandi umsóknir.