131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Forgangur í framhaldsskóla.

380. mál
[18:14]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég fylgi úr hlaði fyrirspurn þeirrar sem hér stendur og hv. þm. Marðar Árnasonar. Nefnd sem í áttu sæti fulltrúar framhaldsskóla og menntamálaráðuneytis og lauk störfum síðla vetrar 2003 var sammála um að væri aðsókn í framhaldsskóla meiri en fjárveitingum næmi væri eðlilegt að forgangsraða nemendum, enda eina raunhæfa úrræði skólanna þegar allt kemur til alls. Fjármagn til framhaldsskóla er ítrekað ónógt miðað við aðsókn að þeim og jafnvel þó að ráðuneytið hafi undirritað samning við framhaldsskóla um tiltekinn fjölda sem hverjum og einum er heimilt að taka inn er ekki veitt fjármagni til þeirra sömu skóla í samræmi við það heldur er tekin einhliða ákvörðun um að í fjöldanum einum saman felist stærðarhagkvæmni. Það er þó ekkert gefið þar sem allt eins getur staðið svo á að skipta þurfi upp hópum þegar komið er upp í tiltekinn fjölda og fjöldinn hafi því í för með sér aukinn kostnað.

Framhaldsskólarnir eru ítrekað settir í þá stöðu að þurfa að velja milli þess hvort þeir veiti umsækjendum skólavist eða að standa við fjárlög. Hvor ákvörðunin sem tekin er felur í raun í sér lögbrot. Sem betur fer hefur fjöldi eldri nemenda vaxið frá ári til árs, þ.e. þeirra sem sækja um vist í framhaldsskóla oft eftir nokkurra ára þátttöku í atvinnulífinu. Það er fagnaðarefni því að ómenntað vinnuafl er ekki það sem heppilegast er fyrir framtíð íslensks atvinnulífs. Það ber því að taka vel á móti þessu fólki ekki síður en nýnemunum.

Ég tek skýrt fram að það er skoðun mín og Samfylkingarinnar að fagna beri öllum þeim sem sækja um skólavist í framhaldsskóla, jafnt nýútskrifuðum úr grunnskóla sem eldri einstaklingum, og að veita eigi þeim ókeypis skólavist. Sú er ekki raunin í dag þar sem aldur ræður í raun af hverjum tekin eru gjöld fyrir nám, samanber nemendur öldungadeilda og fjarnemendur á framhaldsskólastigi. Ég spyr hæstv. ráðherra:

1. Hverjar voru niðurstöður nefndar um fjarnám og forgang í framhaldsskóla sem lauk störfum síðla vetrar 2003?

2. Hvaða reglur gilda af hálfu ráðherra um forgangsröð nemenda sem sækja um skólavist í framhaldsskóla? Taka þær mið af niðurstöðum nefndarinnar?