131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Forgangur í framhaldsskóla.

380. mál
[18:16]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spyr mig tveggja spurninga:

,,1. Hverjar voru niðurstöður nefndar um fjarnám og forgang í framhaldsskóla sem lauk störfum síðla vetrar 2003?

2. Hvaða reglur gilda af hálfu ráðherra um forgangsröð nemenda sem sækja um skólavist í framhaldsskóla? Taka þær mið af niðurstöðum nefndarinnar?“

Hinn 7. ágúst 2003 skipaði þáverandi menntamálaráðherra starfshóp um framkvæmd fjarkennslu á framhaldsskólastigi. Hópurinn skilaði niðurstöðum í desember 2003 í formi innanhússkýrslu, en meginniðurstaða hópsins var sú að ekki væri ástæða til að skilja fjarkennslu frá öðrum kennsluformum sem viðhöfð eru í skólakerfinu. Þetta leiddi til þess að um fjarkennslu gilda almenn ákvæði framhaldsskólalaga og reglugerð á grundvelli þeirra.

Dreif- og fjarkennsla hefur eins og við þekkjum mætavel aukist og blómgast í núverandi lagaumhverfi frá því að Hagstofa Íslands tók að skrá fjarnám sérstaklega frá 1997 og til ársins 2004. Á þeim tíma hefur hún u.þ.b. tífaldast hvað nemendafjölda varðar, úr rúmum 200 nemendum í nálega 2.200 nemendur á árinu 2004, sem er gríðarleg aukning. Í þeirri tiltölulega frjálsu þróun liggur margvísleg hagkvæmni fyrir skólana og einstaklingana sem ég tel ekki ástæðu til að binda á klafa regluverks umfram annað skólastarf, heldur fái fjarkennslan að þróast með öðrum kennsluformum á jafnréttisgrundvelli. Við sjáum að sú þróun hefur verið jákvæð.

Niðurstöður starfshópsins breyttu þannig heldur engu um þær almennu reglur sem unnið hefur verið eftir við innritun í framhaldsskóla. Skólarnir taka við þeim nemendum sem þeir hafa rými fyrir og fjárheimildir eru fyrir á fjárlögum hverju sinni. Fyrst hefur verið gengið frá innritun þeirra sem eru í skólunum í óslitnu námi og skila valblöðum og staðfestingargjöldum. Næst hafa nýnemar úr grunnskólum verið innritaðir og samkvæmt lögum er innritun í framhaldsskóla í höndum skólameistara og hefur ráðuneyti menntamála að jafnaði ekki afskipti af framkvæmd innritunar nema til þess að tryggja, ef því er að skipta, öllum grunnskólanemendum tækifæri til þess að hefja nám í framhaldsskóla, a.m.k. á árinu sem þeir ljúka grunnskólanum.