131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Forgangur í framhaldsskóla.

380. mál
[18:19]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að fjárheimildir ættu að ráða sem þýðir með öðrum orðum að það eiga ekki allir að fá aðgang að framhaldsskóla því fjárheimildir til þess að veita öllum aðgang eru ekki nægilegar. Þá er það klárt.

Það er mikið ánægjuefni hve fjarkennsla og dreifnám hefur aukist. Hins vegar þurfa þeir sem stunda fjarnám á framhaldsskólastigi oft á tíðum að greiða háa upphæð fyrir hverja einustu einingu sem þeir taka. Í þessu felst mikið misrétti gagnvart þeim sem hafa framhaldsskóla við bæjardyrnar hjá sér, sem eru því miður ekki allir Íslendingar og ekki allir í akstursfæri við framhaldsskóla, auk þess sem oft á tíðum er fullorðið fólk að reyna að bæta menntunarstig sitt með því að stunda slíkt fjarnám.

Mér finnst því brotið mjög á jafnrétti eða jafnræði fólks til náms og vildi að þeim sem það kysu yrði gert kleift að stunda fjarnám án þess að greiða fyrir það sérstaklega, en það er því miður ekki svo.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það var ágætt að fá það á hreint hvernig reglur ráðuneytið hefur.