131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Menningarsamningur fyrir Vesturland.

713. mál
[18:32]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að tala alltaf um að verið sé að breyta og breyta forsendum. Það er ljóst að frá upphafi var verið að fara fram á það að Vestfirðingar og Vestlendingar mundu athuga þetta saman, (Gripið fram í.) að eftir breytta kjördæmaskipan yrði það athugað. Það er eðlileg krafa af hálfu ráðuneytisins að menn reyni að vinna meira og betur saman með það í huga að við þurfum að nýta skattfé sem kemur frá einstaklingum og lögaðilum í samfélaginu. Menn verða að hafa það hugfast að sú nýting verði sem best.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda áfram þróun þessara samninga. Samningurinn sem upphaflega var gerður við Austlendinga hefur tekið miklum breytingum og að mínu mati jákvæðum breytingum. Við erum að fá fleiri ráðuneyti inn í þetta sem bera ábyrgð, m.a. á menningartengdri ferðaþjónustu. Við reynum að skoða þetta vítt og breitt yfir og erum að öðlast reynslu frá fyrri samningum sem við metum síðan inn í gerð nýrra samninga. Það er alveg ljóst að þessi nýi samningur leggur líka meiri skyldur á herðar sveitarfélaganna, enda kom það skýrt fram í máli þeirra sem komu að samningnum á Austurlandi að sveitarfélögin meta hann mjög mikils. Þess vegna sáu þau hag sinn í því að koma sjálf með aukið fjármagn inn í samninginn.

Það er ósköp eðlilegt, og ég ætla rétt að vona að hv. þingmaður ætli sér það, að menn vegi og meti hlutina með það í huga að skoða hvaða þróun er æskilegust fyrir hönd þeirra sem koma með skattféð inn í ríkiskassann.