131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:36]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þau tíðindi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur þurfa í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Það lá fyrir við fjárlagagerðina að af hálfu tveggja hæstv. ráðherra, þeirra Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar, var gerð aðför að Mannréttindaskrifstofunni. Það eru, herra forseti, litlir karlar sem ekki þola málefnalega gagnrýni á störf sín og beita almannafé og opinberu valdi til að refsa þeim aðilum sem reyna að halda uppi lýðræðislegri umræðu í landinu.

Öryrkjabandalag Íslands er einn aðilanna að Mannréttindaskrifstofunni og við höfum kynnst því, öryrkjar á Íslandi, að það er takmarkaður skilningur á mannréttindahugtakinu hjá ríkisstjórninni. Oftar en einu sinni hefur þurft að reka hana upp í Hæstarétt og fá hana þar dæmda fyrir mannréttindabrot. Að menn gengju beinlínis fram og refsuðu þeim sem voguðu sér að halda til haga mannréttindasjónarmiðum og sjónarmiðum andstæðum ýmsum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar, þá ekki síst hæstv. dómsmálaráðherra í nokkrum málum á síðasta þingi, datt mér satt að segja ekki í hug. Ég vona að þetta sé einhver allsherjarmisskilningur og að þingið sjái sóma sinn í því að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái sama fjármagn og helst meira og hún hefur haft á síðustu árum því þar hefur sannarlega verið unnið þarft, gott og heilt verk fyrir land og þjóð.