131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:38]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ef til er einhver starfsemi eða stofnun sem á að vera óháð framkvæmdarvaldinu um fjárveitingar eru það þeir aðilar sem falið er það hlutverk af löggjafanum að hafa í frammi eftirlit og aðhald gagnvart þessu sama valdi. Verkefni Mannréttindaskrifstofu eru mannréttindi og að mannréttindunum á nú að þrengja með því að svelta þessa stofnun. Mannréttindastofnun fékk á sínum tíma 8 milljónir, 4 frá dómsmálaráðuneyti og 4 frá utanríkisráðuneyti. Þar af gengu 1.200 þús. til Mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands. Alls hafði hún þannig á sínum snærum 6,8 millj. kr.

Nú er þetta framlag fært niður í rúmar 2,2 millj. kr. Þetta er að sjálfsögðu reginhneyksli og grafalvarlegt mál og nú er að sannast það sem við í stjórnarandstöðunni vöruðum við á sínum tíma, að ríkisstjórnin mundi leggja upp í hefndarleiðangur gagnvart þessari stofnun. Það er nú að sannast. Þetta er ekki síðasta orðið sem sagt verður um þetta málefni í þingsalnum.