131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:39]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það verður skemmtilegt eða hitt þó heldur að lesa skýrslurnar sem nú verða skrifaðar um stöðu mannréttindamála í lýðveldinu og lýðræðisríkinu Íslandi þegar hingað koma þar til sendar nefndir til að gera úttekt á því sem hér má betur fara. Við höfum ekki staðið okkur það vel hingað til — en þó haldið úti Mannréttindaskrifstofu með tiltölulega litlum kostnaði sem unnið hefur mikið og gott starf fyrir þingið og fyrir þjóðina. En það dugar ekki, hún skilar nefnilega ekki réttum álitum, þessi Mannréttindaskrifstofa. Hún skilar ekki álitum sem henta þeim meiri hluta sem hér ræður nú. Þá verður þeim ekki skotaskuld úr því, hæstvirtum, verð ég víst að segja, ráðherrum, Davíð Oddssyni og Birni Bjarnasyni, að leggja það niður sem þeim ekki hentar.

Við höfum séð það áður, hæstv. forseti, og nú má Mannréttindaskrifstofa skrimta á 2 millj. kr. Allir sem hér sitja vita hvað það þýðir. Það þýðir að í raun er verið að leggja hana niður án þess að sú ákvörðun sé tekin með þeim hætti sem í raun ætti að gera, og væri miklu heiðarlegra og betra af þeim mönnum sem ekki vilja halda úti mannréttindastarfi hér á landi að segja það.