131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:43]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Mér finnst mjög einkennilegt að hæstv. utanríkisráðherra skuli vera hér staddur og reyna samt ekki að útskýra þennan niðurskurð. Það er 75% niðurskurður. Hvað veldur því að það eigi að fara í þennan mikla niðurskurð til Mannréttindaskrifstofunnar? Við því fást engin svör. Það er ekki eins og að þessir ágætu herrar séu alltaf að spara. Ísmoli er sendur úr landi með ærnum tilkostnaði, sendiherrum fjölgað um 75% en ef það eru mannréttindamál þarf að spara, um heil 75%. Það er kannski til að vega upp kostnaðaraukninguna af sendiherrunum, herra forseti. Það skyldi þó aldrei vera.

Mér finnst mjög sérstakt að verða vitni að þessari þögn og þessu málleysi hæstvirtra ráðherra.

Ég vil einnig vekja athygli á því að hér liggur fyrir fyrirspurn sem er enn ósvarað frá því um miðjan nóvember, fyrirspurn um kostnað við að Ísland sæki um inngöngu í öryggisráðið. Það er eins og að aldrei sé tími hjá hæstv. utanríkisráðherra til að svara því en ég vona að hann sjái sóma sinn í því að svara fyrir kostnaðinn. Jafnframt vona ég að þegar hann finnur einhverja matarholu svari hann því hvað valdi því að fara þurfi í 75% niðurskurð. Mér finnst vera lágmarkskrafa að hann reyni í einhverju að útskýra þennan sparnað sinn.