131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:46]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög ómálefnalegt framlag af hálfu hæstv. utanríkismálaráðherra. Fram hefur komið að verið er að skera fjárveitingar til Mannréttindastofnunar niður við trog. Hún hafði áður haft fjárveitingar sem nema 6,8 millj. kr. Alls hafði verið varið 8 millj. kr. til Mannréttindastofnunar og gengu 1.200 þús. til Mannréttindastofu Háskóla Íslands.

Nú er utanríkisráðuneytið að falla frá stuðningi við stofnunina sem áður nam 4 millj. kr. Við teljum þetta vera grafalvarlegan hlut. Við höfum sagt og gerðum það á sínum tíma að ríkisstjórnin væri að hefna sín vegna gagnrýni, mjög málefnalegrar gagnrýni sem kom frá stofnuninni í garð ríkisstjórnarinnar vegna fjölmiðlalaganna og vegna annarra frumvarpa sem frá núverandi ríkisstjórn hafa komið. Þetta er málefnaleg umræða af okkar hálfu. Við höfum fært málefnaleg rök fyrir afstöðu okkar. Við höfum krafið ríkisstjórnina svara og þetta er það sem við fáum frá hæstv. utanríkismálaráðherra landsins. Það veldur svo sannarlega vonbrigðum.