131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

705. mál
[14:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Þingsályktunartillagan var kynnt á fundi utanríkismálanefndar sl. föstudag og farið yfir efni hennar. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í ákvæði þingsályktunartillögunnar og breytingar á skipan mála hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg er varðar fjölda dómara og önnur praktísk atriði sem hér eru rakin og miða að því að auka skilvirkni og starfshætti dómsins, en staldra við meginefni máls að minni hyggju, sem er fjórða atriði í athugasemdum við þingsályktunartillögu þessa og varðar efnisatriði máls.

Þar er vikið að því að viss þrenging er til staðar hvað varðar skilyrði dómsins til að taka mál til efnisumfjöllunar og þar nefnt að vísa skal frá kæru vegna meints brots ef ekki verður séð að kærandi hafi orðið fyrir umtalsverðu óhagræði. Jafnframt er sleginn sá varnagli að því umrædda skilyrði, sem er nýtt af nálinni, verði þó ekki beitt ef virðing fyrir mannréttindum, eins og þau eru skilgreind í sáttmálanum og viðbótarsamningum við hann, krefjist þess að efni kæru sé skoðað ef um er að ræða mál sem innlendur dómstóll hefur ekki fjallað um á tilhlýðilegan hátt.

Enn fremur er þess getið að fyrst um sinn verði ákveðinn yfirgöngutími þannig að deildir og yfirdeild dómstólsins muni á fyrstu árunum eftir gildistöku þessa ákvæðis þessa viðbótarsamnings móta þau sjónarmið sem byggt verður á við beitingu þess þannig að samræmd framkvæmd skapist á því sviði sem verði fordæmisgefandi fyrir nefndir eða staka dómara þaðan í frá við ákvörðun um meðferðarhæfi.

Hér er náttúrlega kjarni máls og ég vil láta þess getið að ég hygg að varlega verði að fara í að þrengja mjög svigrúm dómsins til að taka á mikilvægum álitaefnum. Við þekkjum það að Mannréttindadómstóllinn hefur um margt á síðari tímum fengið aukið vægi í almennu eftirliti með mannréttindum í aðildarríkjum að Mannréttindadómstólnum og -sáttmálanum. Þess vegna þarf að stíga mjög varlega til jarðar ef menn ætla að feta þá slóð að þrengja þessi skilyrði mjög. Ég tel, eins og ég segi, mikilvægt að íslensk yfirvöld fylgist mjög vel með og geri það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að svo verði ekki, þótt á hinn bóginn séu það fullgild rök sem koma hér einnig fram að kærufjöldi hefur aukist mjög mikið í stækkuðu upptökusvæði dómstólsins. Þess vegna eru það gild rök að menn reyni að straumlínulaga skipan mála og tryggja það a.m.k. að ekki líði allt of langur tími frá því að erindi kemur þangað inn þar til það verður afgreitt.

Það er kannski enn þá verri hlið á meðferð þessara mála að afgreiðsla þeirra, hvort sem hún er jákvæð ellegar hitt, að viðkomandi kæruefni er tekið til meðferðar, dragist úr hömlu. Að öðru leyti hygg ég að af hálfu okkar samfylkingarmanna verði þessari þingsályktunartillögu tekið með velvilja en vil þó undirstrika það að við verðum á varðbergi hvað varðar hugsanlegar þrengingar á hæfi til efnisumfjöllunar hjá dómstólunum.