131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn.

606. mál
[14:40]

Frsm. utanrmn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í fjarveru formanns utanríkismálanefndar mæli ég fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1133. Þetta er mál nr. 606, tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 179/2004 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 179/2004 frá 9. desember 2004 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu.

Nefndin fékk til fundar við sig þau Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Sigurberg Björnsson frá samgönguráðuneyti og Þorgeir Pálsson og Kristján Þorbergsson frá Flugmálastjórn. Reglugerðin lýtur að stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og skilgreinist sem verkefni sem henni eru falin en stofnuninni er að hluta til ætlað að taka við hlutverki Flugöryggissamtaka Evrópu sem Ísland er aðili að.

Flugöryggisstofnuninni verður falið að gefa út eða meta gildar tegundarviðurkenningar flugvéla og flugvélahluta.

Talið er að töluverðir hagsmunir séu bundnir þátttöku Íslands í Flugöryggisstofnuninni en aðildin gefur Íslandi m.a. færi á að hafa áhrif á mótun reglna og styðja við útrás íslenskra flugfélaga.

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt og undir nefndarálit þetta skrifa hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ritar undir nefndarálitið með fyrirvara.