131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:52]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Málið er ekki flókið, það gengur í stuttu máli út á tvennt. Annars vegar snýst það um tekjur af úrvinnslugjaldi, þ.e. þær tekjur sem fást af því gjaldi, að úrvinnslusjóðir fái að njóta vaxtatekna af því, sem hlýtur að vera réttlætismál. Allir nefndarmenn voru sáttir við það enda er það, eins og ég sagði, virðulegi forseti, eðli málsins samkvæmt réttlætismál og verður vonandi frekar til að lækka gjöldin í nútíð og framtíð.

Hér er svo önnur breyting sem er ekki jafnánægjuleg. Hún felur það í sér að fresta gildistöku hluta laganna frá 1. september 2005 til 1. janúar 2006. Þar er í stuttu máli verið að fresta gildistökuákvæði sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir. Ástæðan fyrir því, sem kom fram í máli gesta nefndarinnar, er að 15% reikniregla sem miðað var við í lögunum væri ónákvæm. Stefnt var að því að leggja fram nýtt frumvarp í haust með nákvæmari reiknireglum. Þrátt fyrir að nefndin hafi ekki verið sátt við að þurfa að fresta þessu aftur þá er það mat nefndarinnar að betra sé að vanda til verksins. Hún leggur áherslu á vinnu við smíði nýrra reiknireglna og aðra vinnu sem nauðsynleg er í því sambandi, svo sem að breytingu á tölvukerfum, verði lokið á tilsettum tíma svo að ekki þurfi að koma til frekari frestunar.

Virðulegi forseti. Í stuttu máli leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Gunnar Birgisson, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.