131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Græðarar.

246. mál
[15:03]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. heilbrigðis- og trygginganefnd. Það er 246. mál, frumvarp til laga um græðara.

Á nefndaráliti á þskj. 1173 er gerð grein fyrir þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar vegna þessa máls og jafnframt eru taldir upp þeir sem skiluðu nefndinni umsögnum vegna frumvarpsins.

Markmiðið með frumvarpinu er að stuðla að öryggi þeirra sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara með því að setja starfseminni ákveðinn ramma og er ætlunin að koma á fót frjálsu skráningarkerfi fyrir græðara í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Skilyrði skráningar eru m.a. þau að uppfylla menntunarkröfur fagfélags innan bandalagsins og hafa í gildi ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi eða ábyrgð veitta af viðskiptabanka eða sparisjóði. Í nefndarálitinu kemur fram að ætlunin sé ekki sú að græðarar verði ný heilbrigðisstétt heldur er einungis verið að setja ramma um starfsemi græðara, koma á virku eftirliti og stuðla þannig að öryggi og gæðum þeirrar þjónustu sem græðarar veita og auðvelda notendum að nálgast upplýsingar um starfsemi þeirra.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu og varða þær fyrstu orðalag, m.a. að í stað orðsins heilbrigðiskerfis sem notað er í frumvarpinu verði notað orðið heilbrigðisþjónusta sem leggur áherslu á þjónustuna sem veitt er. Nefndin telur að samkvæmt frumvarpinu sé skilgreining á þjónustu græðara of þröng þar sem svo virðist sem hún skuli bundin við meðferð á líkama fólks. Því leggur nefndin til orðalagsbreytingu sem felur í sér víðari skilgreiningu og fangar innihald starfseminnar betur.

Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Bandalag íslenskra græðara og landlæknir hafi eftirlit með þeim sem uppfylla kröfur fagfélags en vilja standa utan þess og fá skráningu sem græðarar. Nefndin leggur til að eftirlit með þeim verði einungis hjá bandalaginu en ekki hjá landlækni enda er eftirlit landlæknis almennt takmarkað við heilbrigðisstéttir auk þess eftirlits sem ákvæði læknalaga um skottulækningar fela í sér.

Í 3. gr. frumvarpsins er einnig ákvæði um að ráðherra geti ógilt aðild félags að skráningarkerfinu ef það uppfyllir ekki lengur þær kröfur sem reglugerð kveður á um. Nefndin telur að einnig þurfi að binda í lög ákvæði um afskráningu einstaklinga, þ.e. ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði skráningar enda geta þeir staðið utan félaga en verið skráðir græðarar samkvæmt frumvarpinu og leggur nefndin því til breytingartillögu þess efnis.

Í 3. gr. frumvarpsins er að auki kveðið á um að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um þær kröfur sem fagfélög verða að uppfylla til að eiga aðild að skráningarkerfinu og fyrirkomulag skráningar, upplýsingar um starfsgrein, vistun og viðhald skráningarkerfisins o.fl. Leggur nefndin til að ráðherra kveði þar einnig á um hvernig aðgangi almennings að skrá um græðara skuli háttað enda ekki skýrt kveðið á um það í frumvarpinu.

Nefndin ræddi nokkuð muninn á bótareglum græðara og löggiltra heilbrigðisstétta en hann felst einkum í því að um starfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar gilda lög um réttindi sjúklinga, og lög um sjúklingatryggingu, sem kveða á um hlutlægan rétt sjúklinga til bóta óháð sök starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Um starfsemi græðara gilda hins vegar almennar reglur skaðabótaréttar og bera þeir því ábyrgð á því tjóni sem þeir kunna að valda með gáleysi í störfum. Leggur nefndin til þá breytingu á 4. gr. frumvarpsins að orðið mistök verði fellt brott þar sem það fellur undir gáleysi í skaðabótarétti.

Starfsemi græðara er mjög mismunandi og felur í sér mismikil inngrip í heilsu einstaklinga. Nefndin telur að einstökum félögum eða einstaklingum gæti reynst erfitt eða jafnvel ógerlegt að uppfylla áskilnað frumvarpsins um starfsábyrgðartryggingu eða bankaábyrgð og gæti það því takmarkað úr hófi möguleika einstaklinga til skráningar í hið frjálsa skráningarkerfi græðara sem er megininntak frumvarpsins.

Leggur nefndin því til þá breytingu á 4. gr. frumvarpsins að ráðherra verði heimilt að meta gilda annars konar tryggingu en ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi eða ábyrgð veitta af viðskiptabanka eða sparisjóði, þó með því skilyrði að hún veiti sjúklingum sambærilega vernd. Þannig gæti ráðherra t.d. metið sem fullnægjandi tryggingu stofnun sjóðs innan fagfélags eða öflun starfsábyrgðartryggingar fyrir félagsmenn viðkomandi félags.

Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að um meðferð upplýsinga fari samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Upplýsingar sem græðarar vinna með eru í mörgum tilvikum viðkvæmar persónuupplýsingar og verður því að gera mjög ríkar kröfur til öryggis þeirra. Leggur nefndin því til þá breytingu á frumvarpinu að kveðið verði skýrt á um að um öryggi upplýsinganna fari einnig samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og enn fremur reglum settum með stoð í þeim lögum.

Þá var rætt ákvæði 7. gr. frumvarpsins um að heilbrigðisstofnun sé heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér heilsutengda þjónustu græðara. Leggur nefndin áherslu á að heilbrigðisstofnanir móti sér stefnu um hvenær skuli orðið við slíkum óskum og að kveðið verði skýrt á um það að kostnaður við þjónustuna greiðist af sjúklingi sjálfum. Þá leggur nefndin til þá breytingu að fái sjúklingur á heilbrigðisstofnun meðhöndlun græðara verði meðferðin skráð sérstaklega í sjúkraskrá sjúklings.

Loks var nokkuð rætt um ákvæði 7. gr. frumvarpsins um takmarkanir á heilsutengdri þjónustu græðara og telur nefndin þær eðlilegar. Þar er m.a. kveðið á um að meðferð alvarlegra sjúkdóma skuli einungis veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmanni nema sjúklingur óski eftir þjónustu græðara eftir samráð við lækni og skal græðari í slíkum tilvikum fullvissa sig um að slíkt samráð hafi verið haft. Nefndin leggur áherslu á að samráð samkvæmt greininni lýtur að samskiptum græðara við heilbrigðisstarfsmann og minnir á ábyrgð þeirra gagnvart þeim sem þeir meðhöndla. Þá telur nefndin að greinin tryggi sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga, minni þá á ábyrgð á eigin heilsu og feli í sér að það sé eftir sem áður ákvörðun sjúklings að leita eftir þjónustu græðara en að samráð feli í sér að það sé hans að upplýsa lækni og eftir atvikum heilbrigðisstarfsmenn um það.

Heilbrigðisnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef þegar gert grein fyrir og lagðar eru til í þingskjali 1174.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara.

Hv. þingmenn Þuríður Backman, Bjarni Benediktsson og Guðrún Ögmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita auk framsögumanns hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Einar Karl Haraldsson og Una María Óskarsdóttir.