131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Fjarsala á fjármálaþjónustu.

482. mál
[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Með ákvæðum þessa frumvarps er ætlunin að styrkja innri markaðinn og auka neytendavernd eins og fram kemur í þessu frumvarpi, en verið er að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frumvarp og þær breytingar sem ég flyt ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni.

Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, að þær miklu tæknibreytingar og öru sem verið hafa á umliðnum árum og missirum og sífjölbreyttari þjónusta á fjármálamarkaði við neytendur með auknu valfrelsi og miklu framboði á fjármálaþjónustu kalli á að við búum við markvissa og góða löggjöf til að tryggja öryggi og hag neytenda og að því miðar þessi lagasetning.

Ákvæði þessa frumvarps fela það vissulega í sér að verið er að tryggja hér neytendavernd og styðjum við í Samfylkingunni þetta frumvarp en leggjum samt til breytingartillögur til þess að styrkja ákvæði þessara laga og þar með neytendavernd enn frekar. Það er mikilvægt í þeirri fjölskrúðugu flóru fjármálatilboða að regluverk sé skýrt og að samningsskilmálar um kaup á vöru og þjónustu séu aðgengilegir og að neytendum sé ljós sú áhætta sem viðskipti geta haft í för með sér.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu koma fram reglur í tilskipuninni um neytendavernd við fjarsölu á fjármálaþjónustu, þ.e. þegar neytandi og söluaðili hittast ekki þegar fjármálaþjónustan er markaðssett og gengið frá samningum. Fjarsala getur t.d. farið fram í síma, með bréfaskiptum og tölvupósti á netinu svo dæmi sé tekið. En með fjármálaþjónustu er átt við alla bankaþjónustu og lánveitingar, vátryggingar, fjárfestingar og greiðslur.

Í þeirri breytingartillögu sem ég ætla nú að fara yfir eru hert ákveðin ákvæði í þessu frumvarpi til samræmis við það sem Fjármálaeftirlitið lagði til og Neytendasamtökin, en meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tók ekki tillit til þess eða taldi ekki ástæðu til þess.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingartillögu við 20. gr. Athugasemd kom frá Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið styður meginefni frumvarpsins en setti fram eftirfarandi athugasemd og ábendingu, og les ég orðrétt hér upp úr umsögn Fjármálaeftirlitsins, með leyfi forseta:

„Vegna fyrirhugaðs eftirlits lagði Fjármálaeftirlitið til í umsögn sinni til viðskiptaráðuneytis, þegar frumvarpið lá fyrir í drögum sumarið 2004, að auk tilvísunar í lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi yrði Fjármálaeftirlitinu veitt bein heimild til að birta opinberlega viðvörun um fjármálafyrirtæki sem ítrekað eða með grófum hætti brytu gegn ákvæðum laganna. Ákvæði um slíkt er ekki að finna í frumvarpinu sem nú er til umsagnar. Slík heimild mundi að mati Fjármálaeftirlitsins gera eftirlit skilvirkara og bæta stöðu neytenda. Jafnframt væri það í samræmi við auknar heimildir til gegnsæis í starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem fyrirhugaðar eru í frumvarpi því til breytinga á verðbréfaviðskiptalögum sem nú er til meðferðar hjá Alþingi.“

Fjármálaeftirlitið vitnar hér líka til að sambærilegar reglur gilda í lögum um fjármálaviðskipti, en 7. mgr. 107. gr. laga um fjármálafyrirtæki hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.“

Við teljum að Fjármálaeftirlitið hafi fært góð rök fyrir þessari tillögu þannig að við leggjum til á þingskjali 1201 að við 20. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Brjóti þjónustuveitandi gróflega eða ítrekað gegn lögum þessum er Fjármálaeftirliti heimilt að birta opinbera viðvörun vegna þess.“

Síðan leggjum við til breytingu sem bæði Fjármálaeftirlitið og Neytendasamtökin lögðu til. Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er vísað í umsögn til viðskiptaráðuneytisins, en þar var hvatt til þess að nýtt yrði heimildarákvæði 15. gr. tilskipunar 2002/65/EB til að leggja sönnunarbyrði á þjónustuveitanda hvað varðar upplýsingaskyldu hans og samþykki neytanda.

Rökin sem Fjármálaeftirlitið setur fram eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þjónustuveitandi hefur betri aðstöðu heldur en neytandi til að tryggja sönnun þegar sala er undirbúin, samskipti eiga sér stað að hans frumkvæði og/eða þegar gengið er frá sölu. Vakin skal athygli á því að sú leið hefur ekki verið farin í frumvarpi því sem nú er til umsagnar.“

Við tökum undir þessi rök sem Fjármálaeftirlitið setur fram og tökum upp tillögu þeirra sem lögð er til í breytingartillögu okkar, þ.e. að á eftir 10. gr. komi ný grein, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þjónustuveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að upplýsingar hafi verið veittar í samræmi við efni þessa kafla.“

Þetta er breytingartillagan sem bæði Fjármálaeftirlitið og einnig Neytendasamtökin hafa lagt áherslu á.

Ég vek athygli á því að Neytendasamtökin hafa sett fram fjölmargar breytingartillögur við þetta frumvarp sem ástæða hefði verið til að skoða nánar. Nefni ég bara eina til viðbótar þeim sem hér hefur verið lýst. Hún varðar 16. gr. frumvarpsins. Þar er að finna afar mikilvægt ákvæði um greiðslu með greiðslukorti. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki sem gefa út greiðslukort skulu setja skýrar reglur um það hvernig neytandi getur óskað eftir afturköllun á greiðslu hafi greiðslukort hans verið misnotað við gerð fjarsölusamnings sem ákvæði þessara laga taka til. Jafnframt skal þar kveðið á um hvernig endurgreiða skuli neytanda vegna ólögmætrar misnotkunar á greiðslukorti hans.“

Hér er vissulega um afar mikilvæga grein að ræða sem kveður á um hvernig með skuli farið ef greiðslukort eru misnotuð. Neytendasamtökin telja réttilega og benda á að það sé eðlilegra að Fjármálaeftirlitið, þá í samráði við Neytendasamtökin, setji slíkar reglur fremur en, eins og lagt er til í frumvarpsákvæðinu, að það séu fyrirtækin sem gefi út greiðslukortin sem skuli setja þessar reglur. Þeir leggja til breytingu á því. Við höfum ekki tekið upp þessa breytingartillögu. En það er full ástæða til þess að skoða hana áður en þetta mál fær endanlega afgreiðslu í þinginu.

Loks vil ég benda á, virðulegi forseti, að Seðlabankinn gerði ákveðnar athugasemdir við þessa grein sem ég hef nokkrar áhyggjur af og tel að ástæða hefði hugsanlega verið til að skoða betur. Ábendingar Seðlabankans eru í þá veru að þeir benda á að í lögum um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum sé ákvæði sem takmarki mjög rétt neytenda samkvæmt því ákvæði sem er í því frumvarpi sem við erum að leggja til. Þetta er afmarkandi ákvæði og í frumvarpinu er ekki vísað til þess að það sé ákvæði í öðrum lögum sem takmarki rétt neytenda umfram það sem gert er ráð fyrir í þessu ákvæði. Þar er verið að lýsa rétti viðkomandi ef greiðslukort hans er misnotað. En síðan er annað ákvæði í öðrum lögum, þ.e. þeim lögum sem ég nefndi, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, sem takmarkar þennan rétt eða þetta öryggi sem neytandinn hefur samkvæmt þessu ákvæði í frumvarpinu.

Seðlabankinn segir, með leyfi forseta, og þar eru þeir að vísa í þetta ákvæði sem kveður á um hvernig með skuli fara ef greiðslukort er misnotað:

„Í 16. gr. segir að fyrirtæki sem gefa út greiðslukort skuli setja skýrar reglur um hvernig neytandi geti óskað eftir afturköllun á greiðslu hafi greiðslukort hans verið misnotað við gerð fjarsölusamnings. Jafnframt skuli þar kveðið á um hvernig endurgreiða skuli neytanda vegna ólögmætrar misnotkunar á greiðslukorti hans.“

Síðan segir í 3. mgr. 4. gr. laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, með leyfi forseta:

„Í greiðslukerfum er skylt að skilgreina hvenær greiðslufyrirmæli teljast vera komin til kerfisins og er afturköllun þeirra óheimil eftir tímamark það sem tiltekið er í reglum kerfisins.“

Síðan lýsa þeir þeim greiðslukerfum sem hér gilda. Svo kemur niðurstaða þeirra:

„Af þessu leiðir að ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga ... takmarkar rétt neytenda skv. 16. gr. frumvarpsins. Ekki væri hægt að veita neytendum þann rétt að afturkalla greiðslu með debetkorti, sem fellur undir reglur 789/2003, eftir að greiðslan hefur verið staðfest af JF-kerfinu og skráð á JK-reikning nema um sé að ræða augljós mistök, sbr. 10. gr. reglna nr. 789/2003 sem hægt væri að leiðrétta innan sama bankadags. Að óbreyttu yrði því að taka tillit til þessa í reglum þeim sem útgefendum greiðslukorta er ætlað að setja skv. 16. gr. frumvarpsins.“

Mér þótti slæmt að sjá að þarna væri ákvæði sem takmarkaði það öryggi sem þetta ákvæði á að tryggja neytendum og þeim sem verða fyrir því að greiðslukort þeirra sé misnotað. Það hefði átt að skoða þetta, að mínu mati, nokkuð nánar og a.m.k. að vísa þá með tilvísun í þessi lög um greiðslufyrirmæli þannig að lagatextinn sé skýr og þeim sem eru að ganga úr skugga um rétt sinn samkvæmt þessum lögum sem hér er verið að setja sé þá beint inn á önnur lög sem takmarka þennan rétt. Ég held að það væri mikilvægt til þess að tryggja réttaröryggi.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Ég legg áherslu á þær breytingartillögur sem við höfum flutt í þessu efni og er reiðubúin að draga þær til baka til 3. umr. ef ég finn í umræðu um þetta mál að einhver vilji sé fyrir því að skoða þær frekar í efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. eða að skoða þá ábendingu sem fram kemur hjá Neytendasamtökunum, sem ég tel afar réttmæta, um að það séu ekki fyrirtækin sem gefa út greiðslukort sem setji skýrar reglur um framkvæmd á þessu ákvæði 16. gr. sem ég var að lýsa heldur verði það Fjármálaeftirlitið.