131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Fjarsala á fjármálaþjónustu.

482. mál
[16:00]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Herra forseti. Eitt af meginmarkmiðum þessa frumvarps er aukin neytendavernd við gerð samninga um fjármálaþjónustu í fjarsölu en sala slíkrar þjónustu fer í vaxandi mæli fram með slíkum hætti. Svo segir í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur máli þessu með fyrirvara. Eru þær ástæður helstar að breytingartillögur sem hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson leggja fram við þetta mál eru að mínu mati réttar og góðar. Fáeinar breytingar koma þar fram á nokkrum greinum frumvarpsins og eru þær í takt við umsögn Fjármálaeftirlitsins um málið og nokkuð samhljóma.

Í annan stað hef ég fyrirvara við málið sökum umsagnar frá Seðlabanka Íslands sem er að mínu viti athugunarverð, en samkvæmt Seðlabankanum, ef umsögnin er rétt skilin, munu lög þessi sem tryggja eiga aukið öryggi til neytenda eingöngu ná til fjarsölu á fjármálaþjónustu til þeirra sem greiða með kreditkorti en ekki að öllu leyti til þeirra sem greiða með debetkorti. Í raun má því segja að hér sé um að ræða ákveðið öryggi og neytendavernd sem nær kannski hálfa leið en ekki alla. Beini ég því eindregið til nefndarmanna að skoða þessa umsögn frá Seðlabankanum til hlítar svo hægt verði að finna leið með einum eða öðrum hætti og tryggja þar af leiðandi rétt þeirra neytenda sem greiða með debetkorti.

Að öðru leyti styð ég málið í heild sinni, enda um aukna neytendavernd að ræða og ekki vanþörf á í þeirri miklu flóru sem einkennir fjarsölu á fjármálaþjónustu í dag og fer vaxandi.