131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[17:48]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alveg sjálfsagt, við skulum nefnilega ræða þetta. Við skulum ræða það hverjir í þessu landi hafa helst staðið í fæturna gagnvart stóriðjustefnunni á Íslandi. Það er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Það hefur hún gert í þessum sal. Það hefur hún gert í þeim sveitarstjórnum sem hún á aðild að, hvort sem það er í Skagafirði eða í Reykjavík eða annars staðar. Þetta eru staðreyndir.

Það er engin mótsögn af minni hálfu að vilja veita góða þjónustu á góðu verði og vilja hins vegar taka hluta af þeim hagnaði sem myndast út úr starfseminni. Það er engin mótsögn í því.

Ég hef verið talsmaður þess að hægt verði að taka verðmæti út úr þessu fyrirtæki sem öðrum og flytja þau yfir í aðra uppbyggilega samfélagslega þjónustu. Ég hef verið talsmaður þess öllum stundum. Það er hins vegar staðreynd að Vinstri hreyfingin – grænt framboð talar einum rómi, hvort sem er á Alþingi eða í sveitarstjórnum sem við eigum (GÞÞ: Ævintýrafjárfestingar.) aðild að. Við tölum einum rómi. En að sjálfsögðu eru uppi mismunandi áherslur í því samstarfi sem við eigum. (GÞÞ: Ævintýrafjárfestingar.) Við erum hins vegar talsmenn umhverfisverndar og við erum sá flokkur sem hefur haft uppi varnaðarorð gagnvart stóriðjunni, hér sem annars staðar.