131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[18:04]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var afar athyglisvert að hlýða á ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem fór vandlega yfir málið sem við ræðum hér um, þ.e. skattskyldu orkufyrirtækja. Hann dró fram sjónarmið sem skipta miklu máli í umræðunni. Hann dró fram kjarna þessa máls, þ.e. að hér er verið að hækka álögur á almenning í landinu. Um það snýst málið, að hækka álögur á almenning, hækka hitaveitureikningana og hækka vatnsveitureikningana líkt og orðið hefur með hækkun á rafmagnsreikningunum í samræmi við þær skipulagsbreytingar sem átt hafa sér stað.

Þessi staðreynd er afar athyglisverð í því ljósi að það er ekki langt síðan hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar fór með himinskautum í fögnuði, gleði og ánægju yfir því að eignarskattar skyldu lagðir af. Það var einhver mesti hamingjudagur sem hv. þingmaður hafði upplifað á hinu háa Alþingi. Það eru ekki margar vikur síðan sú gleði ómaði í þingsalnum. Slíkar hugmyndir og markmið virðast fara fyrir lítið þegar kemur að almenningi, hitaveitureikningum og öðru slíku sem þorri almennings þarf að greiða. Þegar kemur að hinum útvöldu hjá ríkisstjórninni þá er gleði og hamingja.

Eins og hér hefur verið farið vandlega yfir eru í raun aðeins tveir aðilar sem fagna þessu máli. Það ætti ekki koma á óvart hverjir þeir eru. Það er Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins. Enda, eins og hér var dregið fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, hafa fulltrúar þeirra verið fámennir á áheyrendapöllum í þingsalnum við að mótmæla því sem hér fer fram. Þeir vita mætavel að í þessum sal eru þingmenn sem gæta vandlega að hagsmunum þeirra. Þeir þurfa ekki að mæta og mótmæla eða vera með einhvern hávaða. Þeir hafa sína fulltrúa á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Auk mín stendur að því hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Margt af því sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar viljum við gera að okkar. Við tökum undir margt af því sem fram kom í máli hans þrátt fyrir að við höfum viljað hafa okkar eigið nefndarálit enda áherslumunur hjá okkur varðandi ákveðin atriði þessa máls. Heilt yfir erum við þó samstiga í málinu. Okkur þykir miður að ætlunin sé að hækka á lögur á almenning í þessu landi. Hér er, eins og nafnið gefur til kynna, um skattahækkanir á orkufyrirtæki að ræða. Hér er aðeins um að ræða frumvarp til laga um skattahækkanir, sem hv. þm. Pétur Blöndal talaði fyrir í upphafi 2. umr. um þetta mál. Það verður að teljast afar athyglisvert í ljósi þess að hv. þingmaður hefur gefið sig út fyrir að vera talsmaður skattalækkana. Hið sama á við um hv. þm. Birgi Ármannsson, sem einnig er í salnum. Þessir hv. þingmenn hafa látið í veðri vaka að þeir væru fyrst og síðast talsmenn skattalækkana en standa keikir með þessu máli, þrátt fyrir að nánast allir sem um hafa fjallað leggist gegn þessum hugmyndum. Þeir liggja yfir einhverjum upplýsingum sem við hin höfum ekki fengið og aðeins Verslunarráðið virðist hafa áttað sig á, enda liggur fyrir umsögn frá Verslunarráði og Samtökum atvinnulífsins á sömu nótum og heyrast frá ríkisstjórninni og meiri hlutanum á hinu háa Alþingi. Þessir aðilar hafa náð virkilega vel saman í þessu máli og standa þétt saman um að hækka álögur á almenning í þessu landi. Út á það gengur þetta mál númer eitt, tvö og þrjú.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, ætla ég að gera grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Með gildistöku nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, urðu miklar breytingar á umhverfi raforkufyrirtækja. Umrædd lög fela í sér aðskilnað milli framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu á raforku, ásamt því að gerð er markaðsleg arðsemiskrafa á rekstur þeirra. Í kjölfar síðustu breytinga á raforkumarkaði, sem tóku gildi um síðustu áramót þegar flutningur og dreifing á raforku voru aðskilin, urðu miklar hækkanir á raforkuverði. Í umsögn Hitaveitu Suðurnesja hefur m.a. komið fram að þessar hækkanir nemi um það bil 15% eða svo þannig að hér er um verulega hækkun að ræða sem rekja má beint til þeirra skipulagsbreytinga sem hæstv. ríkisstjórn stóð fyrir.

Orkufyrirtækin rökstuddu hækkanirnar með auknum kostnaði sem þau hefðu orðið fyrir við kerfisbreytinguna á raforkumarkaði. Breytingar á raforkumarkaði eru ekki að fullu komnar til framkvæmda. Um næstu áramót verður sala á raforku að fullu gefin frjáls. Reynsla annarra þjóða sýnir að það muni taka raforkumarkaðinn allnokkurn tíma að ná nýju jafnvægi. Því er óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja án þess að áhrif nýrra raforkulaga verði að fullu komin í ljós.

Virðulegi forseti. Það er lykilatriði í þeirri umræðu sem hér kom fram og vakti sérstaka athygli mína í andsvari áðan þar sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, lýsti því svo að menn ætluðu að láta sig vaða í þessa kerfisbreytingu, þ.e. að skattleggja hitaveitur og vatnsveitur í landinu, sjá hver reynslan af því verður og endurskoða síðan lögin með tilliti til þeirrar reynslu. Hér virðist hugmyndafræðin fyrst og fremst sú að láta vaða og sjá svo til hvað út úr því kann að koma. Það á að gera tilraunir á almenningi og sjá til hvernig málin æxlast og þróast. Við höfum leitað eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd að fyrir okkur verði lögð sú vitneskja sem gerir það að verkum að meiri hlutinn á hv. Alþingi er tilbúinn til að vaða í breytingar af þessu tagi þrátt fyrir að flestir þeir sem veita umsögn um málið, svo til allri sérfræðingar, hvar í flokki sem þeir standa, leggist gegn þessu. Þrátt fyrir það er ríkisstjórnin og meiri hlutinn á hinu háa Alþingi harðákveðinn í að keyra þetta mál í gegn.

Það er ekki mikil krafa, virðulegi forseti, að við skulum leita til formanns efnahags- og viðskiptanefndar og óska þess að hann færi fram þau rök sem skipta máli, sem gera það að verkum að meiri hlutinn treystir sér til að halda áfram með þetta mál, jafnilla undirbúið og það er. (Gripið fram í.) Hvergi í nefndarálitinu er að finna nokkur rök fyrir þessu enda segir í niðurlagi nefndarálitsins, af því að hv. þm. Pétur Blöndal nefnir það sérstaklega, að það sé ekki nokkur leið að áætla hvaða afleiðingar þetta muni hafa í för með sér. Með öðrum orðum hefur meiri hlutinn ekki reynt að gera neina viti borna könnun á því hverjar verði afleiðingar af gjörðum þeirra. Það er grafalvarlegt mál, virðulegi forseti, að gera tilraunir með pyngju almennings eins og ætlunin er að gera. Að sjálfsögðu verður það almenningur sem þarf á endanum að greiða skattinn sem lagður er á orkufyrirtækin. Það er enginn annar sem greiðir þetta. Ég mun fara yfir það síðar í ræðu minni hvaða afleiðingar þetta kann að hafa í för með sér fyrir orkufyrirtækin, sem hafa gert langtímasamninga með lágmarksarðsemiskröfu til stóriðjunnar. Hvaða afleiðingar hefur þessi skattlagning fyrir þau fyrirtæki?

En ég ætla aðeins áfram, virðulegi forseti, að gera grein fyrir áliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar:

„Hér verður að hafa í huga að samkeppni á raforkumarkaði verður aldrei mikil. Skýrist það af smæð markaðarins og legu landsins. Það er því líklegt að hér á landi muni í besta falli ríkja fákeppni á raforkumarkaði.“

Eins og ég nefndi áðan, virðulegi forseti, og í ljósi reynslunnar af breytingunum á skipulagi raforkumarkaðarins er afar líklegt og nánast fullvíst að fyrirtækin muni velta útgjöldum vegna tekjuskatts yfir á almenning. Ég sé að hv. þm. Gunnar Birgisson, sem er kominn í salinn, tekur þetta sérstaklega til sín.

Virðulegi forseti. Það sem síðan er afar sérstakt og athyglisvert í röksemdafærslu meiri hlutans — af því að hingað í salinn eru komnir nokkrir nýir hv. þingmenn sem ekki sátu hér áðan og hafa kannski ekki áttað sig á því að eitt meginsjónarmiðið sem býr að baki þessum breytingum eru einhvers konar hugmyndir um samkeppni. Þrátt fyrir það á að skattleggja hitaveitur sem byggja fyrst og fremst á einkaleyfum til að nýta heitt vatn og gufu á tilteknum svæðum. En röksemdafærslan sem reynt er að nota, virðulegi forseti, er samkeppnin. — Nú sé ég að yfir andlit hv. þm. Péturs Blöndals færist bros og líklega er það sökum þess að hugmyndafræðin með þessum breytingum er allt önnur. Það á að undirbúa að selja þessi fyrirtæki. Það er í raun og veru undirstaðan og hugmyndafræðin í þessu tiltekna máli, virðulegi forseti, þó að þeir treysti sér ekki til að segja það fullum fetum. Nei. Það eru samkeppnissjónarmið sem hér búa að baki, jafnvel þó að stór hluti af þessari starfsemi sé rekinn undir merkjum einkaleyfa, enda eins og hér hefur komið fram stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu meiri hlutans. Það eru í raun aðeins tveir aðilar sem í þessum miklu athugasemdum sem við höfum fengið við frumvarpið taka undir sjónarmið meiri hlutans.

Ég taldi mig, virðulegi forseti, hafa undir höndum afar athyglisverða umsögn Verslunarráðsins og kemur hún nú í ljós í þeim bunka sem ég hef undir höndum. Verslunarráðið er annar tveggja umsagnaraðila sem telja að hér hafi menn virkilega hitt naglann á höfuðið og hvetja eindregið til samþykktar þessa máls, en eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson fór ágætlega yfir í sinni yfirgripsmiklu ræðu áðan er þetta mjög stórt og mikið mál og tekur talsverðan tíma að setja sig inn í það til að átta sig á öllu sem máli skiptir. Þess vegna er afar athyglisvert og ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa umsögn Verslunarráðsins því þar sem Verslunarráðið telur mikilvægt að þetta verði að lögum þá hljótum við að finna röksemdirnar og hugmyndafræðina sem gerir það að verkum að þeir telja þessa leið vera hina einu sönnu og leyfi ég mér að lesa, með leyfi forseta, umsögn Verslunarráðsins sem er svohljóðandi:

„Reykjavík, 21. febrúar 2005.

Efni: Frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja (364. mál).

Verslunarráð þakkar nefndinni fyrir það tækifæri að fá að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Verslunarráð styður það að frumvarpið nái fram að ganga og gerir ekki athugasemdir við einstök ákvæði þess.“

Þetta eru önnur tveggja umsagna sem virkilega mælir með samþykkt frumvarpsins. Þrátt fyrir ítarlegan lestur og þó ég sé búinn að lesa þetta nokkrum sinnum, virðulegi forseti, skal ég játa að hér finnast ekki rökin fyrir því að fara þessa leið og hef ég þó farið mjög vandlega yfir umsögnina og litið á bakhliðina einnig hvort þar kunni að finnast sjónarmið sem ekki reynast á framhliðinni en svo var ekki. Menn geta kannski séð þetta, hér er röksemdafærslan frá öðrum tveggja umsagnaraðila fyrir því að þessi leið sé sú rétta að fara og ekki finnast rökin hér, hv. þm. Pétur Blöndal, fyrir því að hækka álögur á almenning í landinu. Ekki finnast rökin í umsögn Verslunarráðsins sem mælir eindregið með þessu enda umsögnin upp á þrjár línur, heilar þrjár línur. (PHB: Það er augljóst.) Það er svo augljóst, segir hv. þm. Pétur Blöndal, að hann er ekki einu sinni að segja okkur frá því, okkur hinum sem ekki skiljum af hverju þarf endilega að leggja þetta miklar álögur á almenning í landinu. (PHB: Þeir hljóta að vita það.) (KLM: Er Pétur að hækka skatta?) Hv. þm. Pétur H. Blöndal sem reið til þings á sínum tíma undir gunnfána skattalækkunar stendur nú hér og segir að það þurfi ekki einu sinni að rökstyðja skattahækkanir, það þurfi ekki einu sinni að rökstyðja þær, það skilji þær allir, hv. þingmaður.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að gera grein fyrir áliti 2. minni hluta. Hér segir á þingskjali 204 í 364. máli, með leyfi forseta:

„Þá leggst 2. minni hluti alfarið gegn því að hitaveitur og vatnsveitur verði skattlagðar, enda stenst sú skattlagning ekki við nein efnisleg rök.“ — Og þau rök verða ekki sótt í umsögn Verslunarráðsins eins og hér hefur verið farið mjög vandlega yfir. — „Að óbreyttu munu breytingarnar leiða til þess að allar hitaveitur verða skattskyldar, svo og vatnsveitur sem reknar eru á vegum fyrirtækja sem sameiginlega annast rekstur rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, svo sem Hitaveita Suðurnesja og Norðurorka. Hún mun leiða til hækkunar á gjaldskrám umræddra fyrirtækja eða til lækkunar á arði sem sveitarfélögin hafa haft af þessari starfsemi. Þá er rétt að taka fram að engin tilraun var gerð til að meta áhrif þessara breytinga á gjaldskrá og algerlega nauðsynlegt að mati 2. minni hluta að slík úttekt fari fram áður en svona kerfisbreyting á sér stað.“

Ég nefndi það áðan, virðulegi forseti, og fyrr í ræðu minni að í fyrirspurn eða í andsvari hér áðan — kemur nú ekki hæstv. landbúnaðarráðherra í salinn. Ég er kannski ekki viss um að hann viti hvaða mál hér er á ferðinni, hvað hann er að styðja. Miklar álögur á almenning í landinu, hækkun á reikningum hvað varðar vatn og hita. Hv. þingmaður kinkar kolli og tek ég því þannig að hann hafi þá ekki alveg haft upplýsingar um hvað hér er á ferðinni og geri þá ráð fyrir því að hann leggist á eitt með minni hlutanum á hinu háa Alþingi þegar kemur til atkvæðagreiðslu, því að hæstv. ráðherra var hv. þingmaður ekki fyrir margt löngu og áttum við oft og tíðum ágætt samstarf, sérstaklega í landbúnaðarnefnd fyrir mörgum árum þar sem hæstv. ráðherra gegndi þá formennsku og leiddi hana mjög vel og studdi þá þann ráðherra sem þá sat í stóli landbúnaðarráðherra. En hér hefur hæstv. ráðherra tekið nýjan kúrs, nýjan pól í hæðina og ætlar að standa að því að hækka álögur á almenning í landinu og kinkar kolli. Eru þeir þá orðnir samstiga á þeirri leið hv. þm. Pétur H. Blöndal og hæstv. landbúnaðarráðherra.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hvort hv. þingmaður eigi langan tíma eftir af ræðu sinni.)

Hv. þingmaður á talsvert eftir af yfirgripsmiklu nefndaráliti sem verið er að fara yfir og er vart hálfnaður með það. Já, ég á talsvert eftir af ræðu minni .

(Forseti (ÞBack): Þá vill forseti óska eftir því að hv. þingmaður ljúki ræðu sinni eftir atkvæðagreiðslu og kvöldverðarhlé sem nú verður gert í framhaldi af atkvæðagreiðslunni og taka þá til máls eftir matarhléið.)

Að sjálfsögðu verð ég við því, virðulegi forseti.