131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:49]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á þessa ræðu alla eins og hún leggur sig. Það er tvennt, í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að það séu engin rök í nefndaráliti fyrir þessari breytingu. Það er nú heldur betur. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Einn megintilgangur frumvarpsins er að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði.“ — Þetta er aldeilis markmið. Það er þekkt að það er mjög mikilvægt að skattalög séu án glufna og gloppna og að skattstofninn sé sem mest án undantekninga. Ég veit ekki betur en að sumir í þingflokki hv. þingmanns séu þeirrar skoðunar líka.

Síðan segir líka að samkeppni í rekstri orkufyrirtækja hafi aukist og að orkuveitur sem einstaklingar standa að séu skattskyldar með venjulegum hætti og standi því verr í samkeppninni. Ég hélt að hv. þingmaður væri svo voðalega hlynntur samkeppni. Hann hefur oft talað á þeim nótum. Hann segir að það séu álögur á almenning. Þá vil ég bara benda á það að ríkisstjórnin hefur lækkað skatta á fyrirtæki úr 50% niður í 30% og síðan í 18%. Það þýðir að þá á að vera létting á almenning með nákvæmlega sama hætti, á öll fyrirtæki í landinu. Við höfum verið að létta álögur á almenning með nákvæmlega sömu rökum.

Hv. þingmaður segir að ég vilji selja. Það er ekki ég, það er R-listinn sem vill selja í Reykjavík. Hann vill selja Landsvirkjun, ég veit ekki betur. Og varðandi samkeppnina vil ég benda á það að orkufyrirtæki stunda alls konar starfsemi, m.a. að rækta risarækjur í samkeppni við fiskeldi í landinu. Ég tel mjög eðlilegt að þessi fyrirtæki borgi skatta nákvæmlega eins og öll önnur fyrirtæki í landinu og það sé heilsteypt skattalöggjöf án undantekninga. Þessi fyrirtæki hafa verið í gífurlegum framkvæmdum undanfarin ár og þau munu ekki borga mikla skatta á næstu árum vegna mikilla afskrifta.