131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:55]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afar athyglisvert í þessari umræðu og einkanlega andsvörum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þeir eru farnir að nota þennan ræðustól á hinu háa Alþingi til að veita meiri hlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur eitthvert aðhald. Stóllinn hér, ræðustóllinn á hinu háa Alþingi, (Gripið fram í.) virðist notaður í þessu skyni vegna þess að þeir hafa enga trú á minni hlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur og þurfa að leggja honum lið héðan. (Gripið fram í.)

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann sem er svona upptekinn af því að skattleggja alla skapaða hluti … (Gripið fram í.) Það sem hér er að gerast er ekkert annað en að verið er að færa arðinn frá sveitarfélögum yfir til ríkisins. Það er ekkert annað. Það er það einasta sem er að gerast. Það eina sem er að gerast er að verið er að færa arðinn frá sveitarfélögum yfir til ríkisins. Við hljótum að spyrja: Hvernig stendur á því að sí og æ skuli ríkið koma svona fram við sveitarfélögin? Það varð fátt um svör í þessum efnum.

Og bara til að hafa sagt það í þessum ræðustól, hv. þingmaður talar um að verið sé að loka öllum glufum. Það liggur fyrir í þessu máli að sumar vatnsveitur munu borga skatt en aðrar ekki, eftir því í hvers konar félagsformi þær starfa. Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi meiri hlutans á hinu háa Alþingi, og eftir standa hin dásamlegu orð: Við skulum bara gera þetta í þeirri von að það gangi upp. Við skulum læra af reynslunni, við skulum sjá til hvernig þetta endar og ef það fer illa skulum við reyna að bæta þetta síðar meir.

Undirbúningurinn að þessu máli er algerlega fráleitur. Röksemdafærslan er engin. (Forseti hringir.)